Hjónabönd samkynhneigðra stela sviðsljósinu

Stuðningsmenn hjónabanda samkynhneigðra krefjast réttinda í Sydney í aðdraganda kosninganna …
Stuðningsmenn hjónabanda samkynhneigðra krefjast réttinda í Sydney í aðdraganda kosninganna í Ástralíu. AFP

Spurningin um hvort leyfa eigi hjónabönd samkynhneigðra hefur óvænt orðið eitt helsta málið á síðustu dögum kosningabaráttunnar fyrir þingkosningar í Ástralíu. Stjórnarflokkur forsætisráðherrans hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um málið komist hann aftur til valda.

Skoðanakannanir benda til þess að hinn íhaldssami Frjálslyndi flokkur haldi velli í kosningunum sem fara fram á laugardag. Malcolm Turnbull forsætisráðherra segist ætla að styðja frumvarp til að samkynhneigðir fái jafnan rétt til að ganga í hjónaband. Hann stefnir að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það fyrir lok næsta árs. Spurningar hafa hins vegar vaknað um hvort flokkurinn geti staðið við loforð sitt.

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrðu ekki bindandi og þingmenn þyrftu að samþykkja lög til að hjónabönd samkynhneigðra geti orðið að veruleika. Að minnsta kosti tveir háttsettir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa neitað að svara því hvort þeir myndu styðja frumvörp þess efnis.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Bill Shorten, hefur gagnrýnt hugmyndina um þjóðaratkvæðagreiðslu harðlega og segir hana geta orðið vettvang fyrir andúð á samkynhneigðum. Þingmenn ættu frekar að greiða atkvæði um málið.

Myndband af Shorten frá árinu 2013 þar sem hann lýsti velþóknun á hugmyndinni um þjóðaratkvæðagreiðslu á fundi með kristnum samtökum hafa hins vegar grafið undan gagnrýni hans á ríkisstjórnina.

„Viðhorf samfélagsins hefur breyst í Ástralíu,“ sagði Shorten sem vísar til ógeðfellds málflutnings sem kom fram í kringum þjóðaratkvæðagreiðslu um hjónabönd samkynhneigðra á Írlandi í fyrra. Meirihluti kjósenda samþykkti þau þar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert