Konur verða fyrir barðinu á fíkniefnastríðinu

Ný skýrsla Amnesty International varpar ljósi á þá meðferð sem …
Ný skýrsla Amnesty International varpar ljósi á þá meðferð sem margar konur sæta í fangelsum í tengslum við handtökur vegna fíkniefnastríðsins. AFP

Ný skýrsla Amnesty International varpar ljósi á aðstæður kvenna í Mexíkó þar sem stríðið gegn fíkniefnum geisar af fullum krafti. Af 100 konum sem handteknar hafa verið í tengslum við fíkniefnastríðið sem Amnesty ræddi við, höfðu 72 þeirra verið kynferðislega misnotaðar tengslum við yfirheyrslurnar.

Allar konurnar sögðust hafa upplifað hótanir um kynferðislegt ofbeldi af hálfu lögreglumannanna. The Guardian ræddi meðal annars við perúsku konuna Tailyn Wang. Hún var handtekin á heimili sínu og beitt ofbeldi fyrir framan eigin börn. 

Ofbeldið hélt áfram þar til hún missti fóstur í yfirheyrslu á skrifstofu ákæruvaldsins í Mexíkó City, höfuðborg Mexíkó. Í stað þess að kalla á læknisaðstoð var hún færð í fangelsi á afskekktum stað. Nokkrum dögum síðar var hún ákærð fyrir þátttöku í smygli og skipulagðri glæpastarfsemi. 

Wang greindi frá misnotkuninni við dómara, fulltrúa ákæruvaldsins og lækna sem síðar önnuðust hana. Síðar komst hún að því að hún hafði verið handtekin vegna ábendingar sem reyndist fölsk. 

„Í stað þess að rannsaka misnotkunina á mér lenti ég í því að kerfið brást mér alvarlega. Þar á meðal læknarnir sem þvinguðu mig til að taka lyf gegn vilja mínum,“ er haft eftir Wang hjá The Guardian. Tveimur árum eftir handtökuna situr hún enn í fangelsi og bíður dómsmálsins.

Af þeim 100 konum sem Amnesty ræddi við höfðu 33 þeirra verið nauðgað af fulltrúum lögreglunnar eða hersins, 97 þeirra höfðu orðið fyrir ofbeldi og 66 þeirra sögðust hafa greint yfirvöldum frá misnotkuninni en fyrir daufum eyrum.

Aðeins örfá málanna rötuðu inn á borð ákæruvaldsins. Voru það alvarlegustu málin þar sem konunum hafði verið gefin rafstuð, þær slegnar eða kyrktar. Dómarnir í málunum voru afar vægir, samkvæmt Amnesty. Frá árinu 1991 hafa aðeins 15 dómar fallið í landinu vegna misþyrmingar lögreglufólks við yfirheyrslur.

Sjá umfjöllun Dagbladet.

Sjá skýrslu Amnesty í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert