„Guð vill að þú deyir“

Fjölskyldur þeirra sem létust í árásinni syrgja fyrir utan kaffihúsið.
Fjölskyldur þeirra sem létust í árásinni syrgja fyrir utan kaffihúsið. AFP

Hasnat Karim fór með fjölskyldu sína á vinsæla kaffihúsið Holey Artisan Bakery í miðbæ Dhaku, höfuðborg Bangladess, á föstudagskvöld til að fagna átta ára afmæli yngsta sonar síns.

Makoto Okamura, sem var trúlofuð og hugðist gifta sig fljótlega, var að borða á staðnum á sama tíma með sex öðrum japönskum ríkisborgurum.

Simona Monti, sem var gengin sjö mánuði á leið, ætlaði að snúa aftur til Ítalíu til að fæða barn sitt, og var að kveðja vini sína í Bangladess á kaffihúsinu á sama tíma.

Karim og fjölskylda hans lifðu af þegar sjö byssumenn ruddust inn á kaffihúsið og hófu skothríð. Hinir gerðu það ekki.

Hermenn bera kistu lögregluþjóns sem lést í árásinni.
Hermenn bera kistu lögregluþjóns sem lést í árásinni. AFP

Lá á þakinu í margar klukkustundir

Um klukkan 20:45 gengu sjö byssumenn, klæddir gallabuxum og stuttermabolum, inn á kaffihúsið. Þeir voru með töskur fullar af vopnum og öskruðu „Alla­hu Ak­b­ar“ eða „Guð er mest­ur“. Viðskiptavinir kaffihússins fóru undir borð og reyndu að fela sig frá byssumönnunum, og starfsfólk gerði slíkt hið sama. Diego Rossini, þjónn á staðnum, hljóp upp stiga sem leiddi að þaki kaffihússins. Þaðan stökk hann yfir á annað þak þar sem hann lá í margar klukkustundir. Hann var einn þeirra sem komst lífs af.

Annar hópur starfsfólks faldi sig á salerni á kaffihúsinu. Þar var tímabundið verið að geyma hveiti og ger svo hitinn hafði verið hækkaður þar inni. Átta starfsmenn höfðu troðið sér inn á salernið í steikjandi hita og áttu erfitt með andardrátt. Einn byssumannanna gekk upp að hurðinni og öskraði: „Ef þið eruð Bengalar, komið þá út“. Enginn svaraði. „Ef þið eruð múslímar, komið þá út“. Enginn svaraði. Byssumaðurinn læsti þá hurðinni að salerninu, haldandi að enginn væri þar inni. Það varð starfsmönnunum átta til lífs.

Um er að ræða mannskæðustu gíslatöku í sögu Bangladess.
Um er að ræða mannskæðustu gíslatöku í sögu Bangladess. AFP

Tuttugu myrtir í árásinni

Tutt­ugu gísl­ar, flest­ir þeirra út­lend­ing­ar, voru myrt­ir í árás­inni. Tveir lög­regluþjón­ar létu lífið og þrjá­tíu manns særðust. Liðsmenn ör­ygg­is­sveit­ar­inn­ar björguðu þrett­án manns eft­ir um tólf klukku­tíma gíslatöku og umsát­urs­ástand. Þeir drápu sex víga­menn í leiðinni og hand­tóku einn.

Níu Ítal­ir, sjö Jap­an­ir, einn banda­rísk­ur rík­is­borg­ari og einn Ind­verji voru á meðal þeirra sem myrt­ir voru.

Árás­ar­menn­irn­ir aðskildu útlendinga frá inn­lend­um gest­um staðar­ins. Morðingjarn­ir beittu eggvopn­um á fórn­ar­lömb sín.

„Guð vill að þú deyir“

Þeir sem komust lífs af gengu þó í gegnum hrylling á kaffihúsinu. Einn þeirra var bakarinn Miraj. Hann hafði falið sig, en vígamennirnir fundu hann. „Allir aðrir hlupu en þú náðir því ekki,“ sagði einn vígamannanna við Miraj. „Það þýðir að Guð vill að þú deyir.“

Vígamennirnir fóru með Miraj út, settu hann í stól og bundu sprengjur við hann. Þar kom hann til með að sitja og óttast um líf sitt þar til umsátursástandinu lauk, en þá slepptu vígamennirnir honum. 

Þegar öryggissveitir ruddust loks inn á kaffihúsið vissu vígamennirnir hverju þeir ættu von á. Einn þeirra benti á líkin á gólfinu og sagði: „Við verðum eins og þau bráðum. Sjáumst öll í himnaríki.“

AFP

Heimamenn í bangladesskum öfgasamtökum

Inn­an­rík­is­ráðherra Bangla­dess sagði á laugardag að víga­menn­irn­ir hefðu ekki verið á veg­um hryðju­verka­sam­tak­anna Rík­is íslams, held­ur hefði verið um að ræða heima­menn í bangla­desskum öfga­sam­tök­um sem hafa verið bönnuð í land­inu í meira en ára­tug.

Ríki íslams hafði áður lýst yfir ábyrgð á árás­inni en sam­tök­in birtu meðal ann­ars mynd­ir af meint­um árás­ar­mönn­um fyr­ir fram­an svart­an ISIS-fána.

„Ég get aldrei tryggt öryggi allra aftur

Tveggja daga þjóðarsorg stóð yfir á sunnudag og mánudag í Bangla­dess í dag til minn­ing­ar um þá sem féllu í árásinni.

Ali Arsalan, einn eigenda Holey Artisan Bakery, sagði að enn væri óljóst um framtíð staðarins sem var opnaður fyrir tveimur árum síðan. „Ég get aldrei tryggt öryggi allra aftur. Það er ábyrgð sem verður mjög erfitt að bera.“

Frétt CNN.

Frétt mbl.is: Gísla­taka á kaffi­húsi í Bangla­dess

Frétt mbl.is: Níu Ítal­ir myrt­ir í Dhaka

Frétt mbl.is: Skildu að út­lend­inga og heima­menn

Frétt mbl.is: Gísla­tak­an í Dhaka yf­ir­staðin

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert