Obama: Bandaríkin ekki svo klofin

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í Varsjá í dag.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í Varsjá í dag. AFP

Bandaríkjaforseti reyndi sitt besta til að græða sárin eftir viku sem hann lýsti sem „sársaukafullri“ á blaðamannafundi í Varsjá í dag. „Ég trúi því staðfastlega að Bandaríkin séu ekki eins klofin og sumir hafa látið í veðri vaka,“ sagði Barack Obama.

Fimm lögreglumenn liggja í valnum og sex til viðbótar eru særðir eftir að byssumaður skaut á þá eftir mótmæli gegn lögregluofbeldi í Dallas á fimmtudagskvöld. Boðað hafði verið til mótmælagöngunnar vegna tveggja blökkumanna sem hvítir lögregluþjónar skutu til bana í Louisiana og Minnesota í vikunni.

Mótmæli gegn lögregluofbeldi héldu áfram í gærkvöldi þó að margir minntust einnig lögreglumannanna sem féllu.

„Það er sorg, það er reiði, það er uppnám...en það er eining. Þetta er ekki það sem við viljum vera sem Bandaríkjamenn,“ sagði forsetinn sem hafnaði líkingum við ófriðartíma 7. áratugarins í Bandaríkjunum.

„Þið sjáið ekki óeirðir, þið sjáið ekki lögreglumenn ráðast á fólk sem er að mótmæla friðsamlega,“ sagði forsetinn sem ætlar að stytta dvöl sína í Evrópu og heimsækja Dallas í vikunni.

Obama lýsti árásarmanninum í Dallas sem geðveikum og að hann væri ekki dæmigerður fyrir blökkumenn í Bandaríkjunum frekar en morðinginn sem drap blökkumenn í kirkju í Charleston í Suður-Karólínu í fyrra væri dæmigerður fyrir hvítt fólk.

Forsetinn hét því að halda áfram að ræða um kynþáttamál og eftirlit með skotvopnum þrátt fyrir miklar deilur sem málefnin sköpuðu.

„Þegar kemur að byssuöryggi þá er klofningur. Á milli lítils minnihluta og meirihluta Bandaríkjamanna sem finnst í raun að við getum gert betur þegar kemur að byssuöryggi,“ sagði Obama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert