Barist á ný í Suður-Súdan

Stuðningsmenn varaforsetans, John Garang, fagna er stytta af honum var …
Stuðningsmenn varaforsetans, John Garang, fagna er stytta af honum var afhjúpuð sl. laugardag í tilefni að því að fimm ár eru liðin frá því að Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki. AFP

Átök hafa brotist út á ný í Suður-Súdan milli stuðningsmanna forseta og varaforseta landsins. Fréttamaður í höfuðborginni Juba sagði fréttavef BBC að heyra mætti byssuskot og sprengingar um alla borg og að þungavopnum og skriðdrekum væri beitt í átökunum.

Rúmlega 200 manns hafa farist í átökunum sem staðið hafa yfir frá því á föstudag.

Fréttirnar bárust aðeins nokkrum tímum eftir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krafðist þess að stríðandi fylkingar létu samstundis af bardögunum.

Í yfirlýsingu sinni fordæmdi Öryggisráðið átökin harkalega og hvatti til þess að friðargæsluliðum yrði fjölgað á svæðinu. Biðlaði Öryggisráðið til nágrannaþjóða Suður-Súdan um hjálp við að binda enda á bardagana. Í einróma ákvörðun ráðsins er þess krafist að forseti og varaforseti Suður-Súdan geri allt sem er á þeirra valdi til að hætta öllum bardögum og koma í veg fyrir frekari ofbeldi. 

Herlið forseta og varaforseta landsins hafa barist síðustu þrjá daga í höfuðborginni Juba, en samskipti forsetans og varaforsetans hafa verið brothætt allt frá því að Suður-Súdan lýsti yfir sjálfstæði 2011. 

Fylkingar forseta og varaforseta undirrituðu friðarsamkomulag á síðasta ári en hafa engu að síður haldið áfram að lýsa yfir vantrausti á hvor aðra.

Shantal Persaud, talsmaður Sameinuðu þjóðanna í Juba, sagði hundruð manna hafa leitað skjóls í húsakynnum Sameinuðu þjóðanna í átökunum síðustu daga. Er kínverskur friðargæsluliði á vegum Sameinuðu þjóðanna meðal þeirra sem fallið hafa í átökum helgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert