Demókratar fylkja sér að baki Clinton

Þrátt fyrir að hafa lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton hyggst Bernie Sanders halda kosningabaráttu sinni áfram fram að landsþingi demókrata sem hefst eftir tvær vikur. Þá hefur hann ekki í hyggju að draga sig formlega úr kapphlaupinu, en hefur afþakkað öryggisgæslu leyniþjónustunnar.

Sanders og Clinton fóru fögrum orðum um hvort annað í gær, þegar Sanders viðurkenndi að útnefning flokksins fyrir forsetakosningarnar væri handan seilingar og að Clinton hefði haft betur. Líkamstjáning þeirra bar hins vegar með sér að enn eimi eftir af ágreiningi þeirra sl. misseri og er náið samstarf eða vinskapur líklega ekki í kortunum.

Stuðningsyfirlýsing Sanders var aðeins fengin eftir samningaviðræður sem miðuðu að því að þoka stefnuskrá og forgangsröðun Clinton í átt að þeim hugmyndum sem stór hluti grasrótar Demókrataflokksins hefur fylkt sér að baki í kosningabaráttunni. Undir voru baráttumál á borð við gjaldfrjálst nám, aukið aðgengi að sjúkratryggingum, lágmarkslaun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Ákvörðun Sanders um að halda kosningabaráttunni áfram fram að landsþinginu þykir benda til þess að hann sé hvergi nærri hættur að berjast fyrir þeim málefnum sem eru honum hjartfólgin.

Flestir þeir sem voru viðstaddir tilkynningu Sanders í gær tóku Clinton fagnandi, en endrum og eins heyrðist kallað „Bernie, Bernie!“ í mannfjöldanum. Skoðanakannanir sýna raunar að stuðningsmenn Sanders séu viljugri en menn höfðu talið til að kjósa Clinton, ef ekki til að styðja hana persónulega þá til að koma í veg fyrir að Donald Trump komist í Hvíta húsið.

Samkvæmt könnun Pew Research Center, sem birtist í síðustu viku, sögðust aðeins 9% stuðningsmanna Sanders tilbúnir til að kjósa Trump, en á sama tíma árið 2008, þar sem Hillary Clinton og Barack Obama öttu kappi, sögðust 20% stuðningsmanna Clinton viljugir til að taka John McCain fram yfir Obama.

Hann kann að hafa játað sig sigraðan í forvalinu, en …
Hann kann að hafa játað sig sigraðan í forvalinu, en Bernie Sanders sýnir þess ekki merki að vera hættur að berjast fyrir þeim málum sem hann telur brýnust. AFP

Að sama skapi sögðust 58% stuðningsmanna Clinton tilbúnir til að kjósa Obama í júní 2008, en nú segjast 81% stuðningsmanna Bernie Sanders tilbúnir til að kjósa Clinton. Skýringin að baki þessum mun er líklega sú að demókrötum þyki Trump einfaldlega langt í frá álitlegur kostur.

Sanders gaf raunar út viðvörun til stuðningsmanna sinna í gær varðandi Trump.

„Ef einhver telur að þessar kosningar séu ekki mikilvægar, þá ætti sá hinn sami að staldra við og velta því fyrir sér hvers konar hæstaréttardómara Donald Trump myndi tilnefna og hvað það hefði í för með sér fyrir mannréttindi, jafnrétti og framtíð landsins okkar.“

Þegar fregnir bárust af stuðningsyfirlýsingu Sanders var Trump ekki lengi að bregðast við og sakaði demókratann um að hafa „yfirgefið“ grasrótina. Sagði hann marga stuðningsmenn Sanders svo svekkta að þeir myndu kjósa sig í stað Clinton.

Trump hefur tilkynnt að hann hyggist opinbera varaforsetaefni sitt á föstudag, en landsþing repúblikana hefst á mánudag. Meðal þeirra sem sagðir eru koma til greina eru Mike Pence, ríkisstjóri Indiana, og Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, sem lýsti yfir stuðningi við Trump eftir að hafa dregið sig í hlé í forvali repúblikana.

Newt Gingrich, sem bauð sig fram árið 2012, er einnig á listanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert