Hefur móðgað fólk um allan heim

Boris Johnson er nýr utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson er nýr utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Skipan Boris Johnsons, fyrrverandi borgarstjóra Lundúna og eins helsta talsmanns þess að Bretar segðu skilið við Evrópusambandið, í embætti utanríkisráðherra Bretlands hefur vakið mikil og hörð viðbrögð um allan heim.

Johnson þykir nokkuð umdeildur og sérkennilegur, ekki bara á Bretlandi, heldur víða um heim, og hefur að mati margra stjórnmálaskýrenda ekki það rólyndisfas sem einkennir að jafnaði utanríkisráðherra sem þarf að eiga í góðum og friðsamlegum samskiptum við þjóðarleiðtoga um allan heim.

Johnson er af mörgum nefndur „furðufugl“ en þó nýtur hann vinsælda á meðal margra, sér í lagi Breta, þá ekki síst fyrir óhefðbundna framkomu og skoðanir sem hann hikar ekki við að opinbera.

Angela Eagle, sem gefur kost á sér í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins, brást skemmtilega við þegar hún frétti af því á miðjum fundi í gær að Johnson hefði verið skipaður utanríkisráðherra. Hún var þá einmitt að tala um hann:

Johnson hefur í gegnum tíðina stuðað marga erlenda stjórnmálamenn og leiðtoga með framkomu sinni, líkt og fjallað er um í samantekt The Guardian og raunar fleiri fjölmiðla í morgun.

The Independent tók meðal annars saman gagnvirkt kort yfir öll þau ríki sem Johnson hefur lítillækkað, sem sjá má hér.

Níðvísa um Erdogan

Johnson hlaut í maímánuði á þessu ári fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni breska tímaritsins Spectator fyrir háðsádeiluljóð sitt um Recep Tayyip Er­dog­an, for­seta Tyrk­lands. Er forsetinn þar meðal annars sagður hafa stundað kynlíf með geitum.

Keppn­in fólst í því hverj­um tæk­ist best upp við að móðga tyrk­neska for­set­ann, en verðlaunaféð nam eitt þúsund pundum.

Hér má lesa limruna:

"Th­ere was a young fellow from An­kara,

Who was terrific wan­k­erer.

Till he sowed his wild oats,

With the help of a goat,

But he didn't even stop to than­kera."

Johnson er afar litríkur stjórnmálamaður.
Johnson er afar litríkur stjórnmálamaður. AFP

„Hálf-kenískur“ Obama

Mánuði fyrr, í apríl, var Johnson harðlega gagnrýndur fyrir að kalla Barack Obama Bandaríkjaforseta „hálf-kenískan“. Hann lét ummælin falla í blaðagrein eftir að Obama hafði, í heimsókn sinni í Lundúnum, lýst yfir stuðningi við áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu. Johnson var ekki alls kostar hrifinn af þessum afskiptum forsetans.

„Ein­hverj­ir hafa sagt það vera til marks um vanþókn­un hálf-ken­íska for­set­ans á breska heimsveld­inu sem Churchill varði af kröft­um,“ sagði John­son um Obama, en um­mæl­in vöktu mikla reiði.

Hann skammaðist einnig út í Obama fyrir að láta fjarlægja brjóstmynd af Winst­on Churchill, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Breta, úr Hvíta hús­inu.

Auk þess að mógða þá Erdogan og Obama líkti hann eitt sinn Vladímir Pútín, forseta Rússlands, við Dobby húsálf úr Harry Potter-bókunum. Hann bætti þó við að ólíkt Dobby, þá væri Pútín einnig „samviskulaus einræðisherra“.

Sármóðgaði Palestínumenn

Heimsókn Johnsons til hernumdu svæða Palestínu í nóvember í fyrra var stytt verulega, að beiðni palestínskra yfirvalda, eftir að hann sármógðaði Palestínumenn og tók undir með helstu andstæðingum þeirra.

Hann sagði til dæmis í ávarpi í Tel Aviv, höfuðborg Ísraels, að það væri „algjört brjálæði“ að sniðganga ísraelskar vörur. Aðeins „flauelsjakkaklæddir, skögultenntir vinstri háskólamenn“ í Bretlandi styddu slíkt bann.

Tæklaði tíu ára dreng

Þá vakti það heimsathygli þegar Johnson tæklaði tíu ára gamlan japanskan dreng, Toki Sekiguchi, með harkalegum hætti í rúbbíleik í Tókíó í októbermánuði í fyrra. Atvikið náðist á myndskeiði.

Johnson sagði jafnframt í spjallþætti Davids Lettermans í júní 2012 að hann „gæti verið forseti Bandaríkjanna, tæknilega séð“ þar sem hann fæddist í stórborginni New York 19. júní 1964. 

Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur einnig orðið fyrir barðinu á Johnson. Trump hafði látið hafa eftir sér í blaðaviðtali að sum hverfi í Lundúnum væru orðin stórhættuleg vegna öfgavæðingar. Johnson svaraði að bragði: „Eina ástæða þess að ég myndi ekki fara í eitt einasta hverfi New York er sú raunverulega hætta á að ég gæti rekist á Donald Trump.“

AFP

Borðtennis ensk íþrótt?

Í lokaathöfn Ólympíuleikanna í Peking, höfuðborg Kína, í ágúst 2008 sagði Johnson að „með fullri virðingu fyrir kínverskum gestgjöfum okkar“ þá hefði borðtennis verið „fundið upp á borðstofuborðum í Englandi á nítjándu öld. Það er satt. Og það var kallað wiff waff“.

Fjórum árum síðar, þegar Johnson ætlaði sér að fagna fyrstu gullverðlaunum Bretlands á Ólympíuleikunum í Lundúnum með því að renna sér eftir línu sem strengd var yfir Viktoríugarð í Austur-Lundúnum, fór ekki betur en svo að hann stöðvaðist á miðri leið og hékk hjálparlaus í línunni í sex metra hæð.

Áhorfendur á jörðu niðri virtust hafa takmarkaða samúð með borgarstjóranum þáverandi og hlógu að óförum hans. Honum var komið til bjargar nokkrum mínútum síðar.

Sadískur hjúkrunarfræðingur

Johnson skrifaði grein um Hillary Clinton í breska dagblaðið The Telegraph í nóvember 2007, en hún var þá, líkt og nú, í framboði fyrir forsetakosningarnar vestanhafs. Greinin var undir yfirskriftinni Ég vil að Hillary Clinton verði forseti en þar lýsir hann Clinton á eftirfarandi hátt: 

„Hún er með litað, ljóst hár og þrýstnar varir og stálblátt augnaráð eins og sadískur hjúkrunarfræðingur á geðsjúkrahúsi.“

Boris Johnson og David Cameron, fyrrum forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson og David Cameron, fyrrum forsætisráðherra Bretlands. AFP

Mannætuveislur í Papúa Nýju-Gíneu

Og önnur blaðagrein Johnsons í The Telegraph, að þessu sinni í september 2006, vakti ekki síður athygli. Þrátt fyrir að greinin fjallaði um leiðtogakreppu innan Verkamannaflokksins, afrekaði hann að móðga íbúa Papúa Nýju-Gíneu:

„Síðustu tíu árin höfum við í Íhaldsflokknum vanist mannætuveislum og höfðingjadrápi að hætti íbúa Papúa Nýju-Gíneu og þess vegna fylgjumst við undrandi og glöð með því er þessi brjálsemi steypist yfir Verkamannaflokkinn.“

Stjórnvöld þar mótmæltu ummælum Johnsons harðlega og baðst hann afsökunar með þeim orðum að vísast væri framganga íbúa Papúa Nýju-Gíneu líkt og annarra mótuð af „óflekkuðum, smáborgaralegum viðmiðum viðtekins fjölskyldulífs“. Upplýsingar sínar kvaðst Johnson hafa úr stórmerkri bók sem Time Life hefði gefið út um Papúa Nýju-Gíneu og geymdi myndir frá sjötta eða sjöunda áratugnum af frumbyggjum, sem uppteknir væru við „frumstæðan hernað og manndráp“. Kvaðst hann ekki fá betur séð en þessi líking ætti fyllilega við um leiðtogavanda Verkamannaflokksins.

Samantekt The Guardian

Samantekt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert