Hræddust ekki skriðdrekana

Mótmælendur ráðast á skriðdreka í Ankara í nótt.
Mótmælendur ráðast á skriðdreka í Ankara í nótt. AFP

Það hófst allt á hinni goðsagnakenndu Bosphorus-brú, þar sem hermenn í fullum skrúða lokuðu skyndilega veginum yfir brúna. Það var þá sem fólk áttaði sig á að eitthvað væri í uppsiglingu þetta hlýja föstudagskvöld.

Fregnir af valdaráni skömmu síðar minntu eflaust marga Tyrki á tuttugu ára tímabil á síðustu öld, þegar herinn steypti stjórn landsins af stóli alls þrisvar á árunum 1960–1980. 

Fyrst um sinn var viss ró yfir borginni, að minnsta kosti á götum úti, þar sem fólk hélt sig heima og fylgdist með fregnum af gangi mála. Margir litu svo á að valdaránið hefði heppnast, Erdogan væri búið að steypa af stóli og landið komið í hendur hersins. Sú reyndist raunin ekki en ljóst var í dagsbirtunni í morgun að valdaránstilraunin myndi svo sannarlega draga dilk á eftir sér.

Hlýddu kalli forsetans

Þegar forseti landsins hvatti landa sína til þess að fara út á götur og mótmæla tilrauninni komst harka í átökin. Nú er ljóst að 265 létu lífið í átökunum, þar af 161 almennur borgari. Eftir yfirlýsingu forsetans marseraði fólkið að Ataturk-flugvellinum sem hafði verið lokað af uppreisnarmönnunum fyrr um kvöldið.

Þá fylgdist ljósmyndari AFP með þegar mannfjöldinn gekk að fyrrnefndri Bosphorus-brú til þess að ögra hinum vel vopnuðu uppreisnarmönnum. „Þetta var mjög skrýtið, þau gengu að hermönnunum með ró, eins og þau væru ekki hrædd við neitt,“ sagði ljósmyndarinn.

En fljótlega brutust út átök og mátti heyra skothvelli á brúnni þar sem uppreisnarmennirnir skutu að mótmælendum.

Hægt var að hlúa að einhverjum þeirra á meðan aðrir lágu á jörðinni afskiptalausir. Þá fór að heyrast í sprengjum og að sögn ljósmyndarans var leyniskytta á vegum uppreisnarmannanna jafnframt búin að koma sér fyrir í súlum brúarinnar og skaut á mótmælendur.

Óvopnaðir borgarar réðust á skriðdrekana

Við dögun neyddust uppreisnarmennirnir til þess að gefast upp, leggja frá sér vopn og ganga að mótmælendunum og lögreglu með hendur fyrir aftan höfuð.

Þá hlupu mótmælendur að vopnunum og einfaldlega spörkuðu í þau af reiði. Þá hófust fagnaðarlætin þar sem fólk stökk upp á skriðdreka uppreisnarmannanna, vopnað engu nema tyrkneska fánanaum og hrópaði  „Guð er mestur“.

Mátti sjá svipaða hluti gerast á Taksim-torgi í miðborg Istanbúl þar sem mótmælendur gerðu hvað sem þeir gátu til þess að hrella hermennina í skriðdrekunum og sýna að þeir væru ekki velkomnir.

Í Ankara, höfuðborg Tyrklands, köstuðu mótmælendur steinum í skriðdreka sem varð til þess að hann hörfaði nokkra metra. Síðan gaf hann í og keyrði yfir bíl og gjöreyðilagði hann. Skömmu síðar var hermaðurinn í skriðdrekanum neyddur upp úr honum og umkringdur af mótmælendum sem hrópuðu ókvæðisorð að honum.

„Drepið þá í nafni Guðs“

Nú hafa yfirvöld látið handtaka tæplega 3.000 manns í tengslum við valdaránið.

Mátti sjá að margar handtökurnar fóru nokkuð harkalega fram og í Ankara voru birtar myndir í sjónvarpi sem sýndu hóp hermanna liggjandi með andlitið í jörðina áður en þeir voru leiddir í yfirheyrslur.

Ljósmyndari AFP í Istanbúl sá jafnframt mótmælendur taka hermenn af lífi án dóms og laga.

„Fólkið hljóp að þeim og sagði hluti eins og „drepið þá í nafni Guðs.“ Fólkið barði og meira að segja stakk hermennina,“ sagði ljósmyndarinn en hann horfði upp á uppreisnarmann láta lífið á staðnum eftir árás mótmælenda.

Aðrir særðust alvarlega og ekki er vitað um örlög þeirra.

Það var ljóst að mótmælendur vildu ekki vitni að árásum þeirra og öskruðu á ljósmyndara sem reyndu að taka upp hvað væri í gangi.

Í dag virðist sem spenna næturinnar sé aðeins til í minningunni, alla vega á yfirborðinu. Í dag var tími fyrir sjálfsmyndir fyrir framan skriðdrekana og fögnuð á Taksim-torgi. Aðstandendur hinna 265 sem létu lífið syrgðu eflaust annars staðar.

Á Bosphorus-brúnni í dag.
Á Bosphorus-brúnni í dag. AFP
Svona lítur þinghúsið í Ankara út eftir atburði næturinnar.
Svona lítur þinghúsið í Ankara út eftir atburði næturinnar. AFP
Yfirgefnir skriðdrekar á götum Istanbúl í dag.
Yfirgefnir skriðdrekar á götum Istanbúl í dag. AFP
Þessi stillti sér upp við skriðdreka með kínverska fánann í …
Þessi stillti sér upp við skriðdreka með kínverska fánann í hendi. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert