Vilja viðskiptasamning við Bretland

Wikipedia

Bandarísk stjórnvöld hafa þegar hafið óformlegar viðræður við háttsetta breska embættismenn um mögulegan viðskiptasamning á milli Bandaríkjanna og Bretlands eftir að Bretar segja skilið við Evrópusambandið. Þetta upplýsti Mike Froman, yfirmaður utanríkisviðskipta í ríkisstjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta, fyrir helgi samkvæmt frétt Financial Times. Fleiri ríki eins og Ástralía, Kanada, Nýja-Sjáland, Mexíkó, Indland og Suður-Kórea hafa þegar lýst yfir áhuga á viðskiptasamningi við Bretland auk EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein.

Haft er eftir Froman að hann hafi rætt við nokkurn fjölda breskra embættismanna frá því að breskir kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæði 23. júní að yfirgefa Evrópusambandið. Viðræðurnar hafi snúist um þau áform Breta og mögulegan tvíhliða viðskiptasamning eftir að úrsögnin úr sambandinu hefur tekið gildi. Fyrir þjóðaratkvæði sagði Obama að ef Bretar segðu skilið við sambandið lentu þeir aftast í röð þeirra sem vildu viðskiptasamning við Bandaríkin. Eins og fram kemur í fréttinni er því ljóst að stefnubreyting hefur átt sér stað í þeim efnum.

Froman segir við Financial Times að mögulegur viðskiptasamningur sé þó háður því hvað samið verði um á milli Bretlands og Evrópusambandsins í tegslum við úrsögnina. „Munu þeir hafa fullveldi yfir tollamálum? Munu þeir hafa fullveldi yfir lagasetningu? Þar til þetta skýrist betur er erfitt að segja nákvæmlega til um það hvers konar viðskiptasamninga þeir kunna að geta samið um við aðra.“ Viðræðurnar fara fram samhliða yfirlýsingum fulltrúa repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um að hefja ætti slíkar viðræður við bresk stjórnvöld.

Ríkjum Evrópusambandsins er óheimilt að semja um viðskipti við önnur ríki en Froman segir ekkert því til fyrirstöðu að óformlegar undirbúningsviðræður um viðskipti fari fram áður en Bretland yfirgefur sambandið formlega. Froman segir enn fremur að í ljósi fyrirhugaðrar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu sé ástæða til að endurmeta yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna við sambandið enda sé Bretland stór ástæða fyrir því að sá samningur sé talinn eftirsóknarverður að mati Bandaríkjamanna. Fjórðungur bandarísks útflutnings til Evrópusambandsins fari þannig til Bretlands.

Hugsanlegt sé að Bretland verði aðili að fríverslunarsamningnum á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins þegar landið segir skilið við sambandið og viðræðum um samninginn hefur verið lokið að sögn Fromans. Það sé einn af þeim möguleikum sem ræddir hafi verið varðandi mögulegan viðskiptasamning á milli Bandaríkjanna og Bretlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert