Hefur áhyggjur af tilraunum N-Kóreu

Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir nýlegar tilraunir Norður-Kóreumanna með langdrægar eldflaugar vera mikið áhyggjuefni og séu til þess fallnar að grafa undan tilraunum til þess að draga úr spennu á Kóreuskaganum.

Norður-Kórea skaut upp tveimur SCUD-eldflaugum og einni Rodong-flaug í morgun í viðleitni stjórnenda landsins til að ögra alþjóðasamfélaginu og svara fyrir fyrirhugaðri uppsetningu bandarísks eldflaugakerfis í Suður-Kóreu.

„Tilraunaskot Norður-Kóreu eru mikið áhyggjuefni,“ sagði Farhan Haq, talsmaður Ban Ki-moon. „Aðgerðir sem þessar eru ekki til þess fallnar að draga úr spennu á Kóreuskaganum.“

Að sögn Koro Bessho, formans öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, er það nú til skoðunar hjá öryggisráðinu hvernig bregðast skuli við tilraunaskotum Norður-Kóreumanna. „Við vonumst til þess að geta brugðist við með viðeigandi hætti,“ sagði hann og bætti við: „Við eigum í viðræðum við nokkra bandamenn.“

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur áhyggjur af þróun mála í Norður-Kóreu en Bandaríkin hafa ekki kallað eftir sérstökum fundi hjá öryggisráðinu vegna ástandsins. Norður-Kórea hefur fimm sinnum verið beitt efnahagsþvingunum af hálfu Sameinuðu þjóðanna síðan 2006 vegna tilrauna ríkisins með gereyðingarvopn og langdrægar flaugar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert