Með fána Ríkis íslams í herbergi sínu

Mikill viðbúnaður lögreglu var á vettvangi árásarinnar.
Mikill viðbúnaður lögreglu var á vettvangi árásarinnar. AFP

Árás­armaðurinn sem réðst með öxi og hníf að farþegum um borð í lest við Würzburg í  Þýskalandi í gær var með handmálaðan fána hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í herbergi sínu.

Árásarmaðurinn, sem var 17 ára hælisleitandi frá Af­gan­ist­an, er sagður hafa hrópað „Allahu akbar“ (Guð er mikill) meðan á árásinni stóð. Fjórir Hong Kong-búar særðust í árásinni og er ástand tveggja þeirra alvarlegt, að sögn þýskra yfirvalda.

Joachim Herrmann, innanríkisráðherra í Bæjaralandi, sagði í viðtali við þýska sjónvarpsstöð að fáni Ríkis íslams hefði fundist meðal annarra muna í herbergi árásarmannsins. Hann bjó hjá fósturfjölskyldu í bænum Och­senf­urt eftir að hafa áður búið í flóttamannamiðstöð í bænum.

Eng­ar upp­lýs­ing­ar liggja fyr­ir um ástæður árás­ar­inn­ar og sagði Herrmann of snemmt að segja til um hvort árásarmaðurinn hafi tilheyrt Ríki íslams, eða hvort hann hafi snúist á sveif með þeim nýlega. Árásarmaðurinn féll fyrir skotum lögreglumanna er hann flúði af vettvangi.

Kínverska dagblaðið The South China Morning Post segir að fórnarlömb árásarinnar hafi verið 62 ára karlmaður, eiginkona hans, dóttir þeirra á þrítugsaldri og kærasti hennar. Sautján ára sonur þeirra, sem einnig var með í för, er sagður hafa sloppið ómeiddur.

Hefur blaðið eftir heimildarmanni að faðirinn og kærastinn hafi reynt að verja aðra úr fjölskyldunni fyrir árásarmanninum.

Þýska DPA-fréttastofan hefur eftir einum íbúa að lestarvagninn hafi litið út eins og sláturhús eftir árásina. 

Að sögn fréttavefjar BBC gætir nú nokkurra áhyggja í Þýskalandi af mögulegum hryðjuverkaárásum í landinu, í kjölfar árásanna í Frakklandi undanfarin misseri.

Réðst að farþegum með öxi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert