Yfir 15 þúsund ríkisstarfsmenn reknir

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Tyrknesk stjórnvöld hafa vikið 15.200 starfsmönnum menntamálaráðuneytisins úr starfi vegna meintra tengslna þeirra við klerkinn Fethullah Gulen.

Þá hafa þau krafist þess að deildarforsetar og rektorar allra háskóla landsins, bæði ríkisrekinna og einkarekinna, samtals 1.577 manns, segi tafarlaust af sér.

Tyrknesk stjórnvöld eru sannfærð um að Gulen hafi staðið að baki misheppnuðu valdaránstilrauninni í landinu á föstudag.

Rece Tayyip Erdogan, forseti landsins, hefur sagt að þeir sem tóku þátt í tilrauninni muni þurfa að gjalda þess dýru verði.

Þá greindi tyrkneski ríkisfjölmiðillinn Anadolu frá því í dag að 399 starfsmenn ráðuneytis fjölskyldu- og velferðarmála hefðu verið reknir.

Miklar hreinsanir eiga sér nú stað í stjórnkerfi landsins. Þúsundir hermanna, lögreglumanna og embættismanna hafa verið handteknir eða reknir úr starfi frá því á föstudag.

Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, hefur þráfaldlega neitað því að tengjast valdaránstilrauninni. Hann telur að Erdogan hafi sjálfur sett tilraunina á svið til þess að styrkja valdastöðu sína enn frekar og sölsa undir sig meiri völd.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert