Drottningin skoðuð með ódýrum neðansjávardróna

Tahoe gufuskipið liggur á 150 metra dýpi og þykir merkilega …
Tahoe gufuskipið liggur á 150 metra dýpi og þykir merkilega vel varðveitt.

Þegar fornleifafræðingurinn John Foster ræðir um skip þá er líkt og hann sé að tala um ofurfyrirsætur, segir í grein á vef BBC sem fjallar um nýja gerð neðansjávar dróna sem eru notaðir til að kanna hafdjúpin.

Nýlega fór notuðu teymi Fosters og OpenROV, fyrirtæki sem framleiðir neðansjávardróna, einn slíkan til að kafa niður á 150 metra dýpi uppi á hásléttunni þar sem Tahoe stöðuvatnið stendur og niður að sögufrægu gufuskipi sem enginn hefur barið augum í 70 ár.

Foster kallar Tahoe gufuskipið aldrei annað en „Drottninguna“. Skipið sigldi með farþega, farm og póst um Tahoe stöðuvatnið, sem liggur milli mörkum Kaliforníu og Nevadafylkis og farþegarnir kunnu vel að meta glæsileika, fegurð og þægindi skipsins.

Þegar tækninni fleygði fram og vegur var  lagður umhverfis vatnið varð eftirspurn eftir ferðum með gufuskipinu allt í einu enginn. Fyrirtækið missti póstferðasamning sinn og Tahoe gufuskipið fór í niðurníðslu.

Ferðamannastaðurinn sem aldrei varð

Þá kom William Seth Bliss, sonur viðskiptajöfursins  Duane Leroy Bliss, til skjalanna með frábæra hugmynd. Skipinu skildi sökkt á hæfilegu dýpi og ferðamönnum yrði síðan boðið upp á siglingar á bátum sem væru með glugga í botninum og sem þeir gætu virt skipið fyrir sér í gegnum.

Útreikningar Bliss voru hins vegar ekki gallalausir og þegar Tahoe var sökkt dag nokkurn árið 1940, þá rann skipið niður bakka og hélt  áfram að sökkva.  Þegar för þess loks stöðvaðist var það komið á 150 metra dýpi, en Tahoe stöðuvatnið er tæpa 2.000 metra yfir sjávarmáli og við þær aðstæður er köfun erfið.

Með ódýrum neðansjávardróna náðu Foster og teymi OpenROV hins vegar að skoða þetta sögufræga gufuskip.

Stofnun OpenROV má rekja til hugmyndar sem var í upphafi fjármögnuð með hópfjármögnun á Kickstarter. Takmarkið var að framleiða neðansjávardróna sem nota mætti til að mynda það sem fyrir augu ber á hafsbotni.

Til að komast niður á botn Tahoe vatns og jafn nálægt skipinu og hægt var notaði teymið dróna sem kostar tæpa 900 dollara, eða um 110 þúsund krónur. Búnað sem er verulega mikið ódýrari en flest önnur tæki sem notuð eru við neðansjávarköfun. OpenROV vona að þúsundir hafkönnuða fylgi í fótspor þeirra og skoði nú sjaldséða staði á hafsbotni.

Síðar á þessu ári kemur á markað ný gerð af neðansjávardróna frá fyrirtækinu, hefur hann  fengið nafnið Trident og kostar um 1500 dollara, eða um 184 þúsund krónur. Trident getur kafað niður á 100 metra dýpi og synt álíka hratt og ólympískur sundmaður.

Drónanum stýrt með PlayStation pinna

Þar sem Tahoe gufuskipið liggur á 150 metra dýpi þá gerði teymið töluverðar breytingar á drónanum áður en hann var sendur þangað niður. Langt tjóður var látið falla niður í vatnið svo hægt yrði að fjarstýra drónanum á þessu dýpi. Síðan var hluti teymisins í gúmmíbát á vatninu og sá um að senda gögn til stjórnstöðvarinnar í nærliggjandi sumarbústað.

Þaðan var drónanum svo stjórnað með PlayStation stýripinna og hann látinn kafa umhverfis skipið. Fjöldi áhangenda OpenROV, sem sumir hverjir styrktu verkefnið á Kickstarter á sínum tíma, fylgdust með atburðinum í gegnum netið

Dróninn kafaði neðar og neðar, allt þar til skipið blasti við. Það var óneitanlega bæði ryðgað og gróðri vaxið, enginn vafi lék þó á að þetta var Tahoe gufuskipið.

Skipið stóð enn upprétt, þannig að dróninn gat synt um þilför þess og gægst inn í klefana sem voru ótrúlega vel varðveittir þrátt fyrir langa dvöl á hafsbotni. Dróninn gat einnig gægst inn um kýraugu skipsins, þó að dæld væri í því miðju.

Mikil fagnaðarlæti brutust út hjá teyminu og hamingjuóskir streymdu inn á netinu. Foster sjálfur gat þó bara hvíslað: „hún er falleg.“

OpenROV fóru nokkrar ferðir að vatninu áður en dróninn var sendur niður, en draumurinn er að sögn Davids Lang, eins stofnenda OpenROV, að gera neðansjávar kannanir mögulegar fyrir alla. „Okkar endanlega takmar er að gera fólk forvitnara,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert