183 þúsund skráð sig í flokkinn

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

Sigurmöguleikar Jeremys Corbyns í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins hafa aukist verulega eftir að yfir 183 þúsund manns greiddu 25 pund til þess að skrá sig í flokkinn í vikunni.

Þeir geta tekið þátt í kjörinu og kosið sér næsta leiðtoga flokksins.

Stuðningsmenn Corbyns eru þess fullvissir að flestir nýju flokksfélaganna muni kjósa Corbyn. Hann nýtur mikilla vinsælda meðal almennra flokksfélaga, en langflestir þingmenn flokksins hafa hins vegar lýst yfir vantrausti á hann.

Corbyn mun hrinda kosningaherferð sinni af stað í dag.

Skráðir flokksfélagar munu geta kosið á milli hans og Owens Smiths, þingmanns flokksins. Þeir hyggjast báðir ferðast um landið á næstu dögum og ræða við flokksfélaga. Báðar fylkingar hafa á undanförnum dögum hvatt Breta til þess að ganga til liðs við flokkinn og kjósa í leiðtogakjörinu.

Corbyn sigraði í leiðtogakjöri flokksins í október í fyrra. Þá skráðu fjölmargir sig í flokkinn í aðdraganda kjörsins til þess eins að styðja Corbyn, sér í lagi ungt fólk, en hann hlaut 60% atkvæða í kjörinu og var sigur hans nokkuð afdráttarlaus.

Stjórnmálaskýrendur telja að sama sé upp á teningnum nú.

Framganga Corbyns í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild Breta að Evrópusambandinu var harðlega gagnrýnd. Flokkurinn lagðist opinberlega gegn útgöngu úr sambandinu en þó þykir ljóst að margir flokksfélagar, sér í lagi á landsbyggðinni, greiddu atkvæði með henni. Þótti Corbyn ekki sannfærandi í kosningabaráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert