Stoltur af því að vera samkynhneigður og repúblikani

Peter Thiel gerði kynhneigð sína að umtalsefni í ræðu sinni …
Peter Thiel gerði kynhneigð sína að umtalsefni í ræðu sinni á landsþingi Repúblikana í nótt. AFP

Milljarðamæringurinn Peter Thiel, sem stofnaði fyrirtækið Paypal á sínum tíma, varð í nótt fyrsti ræðumaðurinn á landsfundi repúblikana í Bandaríkjunum til að greina stoltur frá því að hann væri samkynhneigður í ræðustól. Síðasti samkynhneigði ræðumaðurinn á landsþinginu var Jim Kolbe árið 2000. 

Thiel er stuðningsmaður Donalds Trumps og hefur lengi tjáð sig opinskátt um stjórnmálaskoðanir sínar. Skoðanir hans eru sagðar talsvert á skjön við skoðanir annarra yfirmanna tæknifyrirtækja í Silicon Valley. Samkvæmt frétt CNN skrifuðu 145 leiðtogar tölvufyrirtækja í Silicon Valley undir opið bréf þar sem lýst var yfir áhyggjum af framgöngu Trumps.

Thiel gerði kynhneigð sína að umtalsefni í ræðu sinni, sérstaklega í ljósi þess að í stefnu Repúblikanaflokksins má finna ýmsar málsgreinar sem ganga gegn grundvallarmannréttindum samkynhneigðra. 

„Ég er stoltur af því að vera samkynhneigður. Ég er stoltur af því að vera repúblikani. En fyrst og fremst er ég stoltur af því að vera Bandaríkjamaður,“ sagði Thiel og hlaut mikið lófaklapp fyrir. 

En hann bætti svo við: „Ég ætla ekki að þykjast vera sammála öllu því sem kemur fram í stefnu flokksins. En barátta við fölsk menningarfyrirbæri truflar okkur frá því að ræða efnahagsniðursveifluna. Enginn í þessari kosningabaráttu er skýrari hvað það varðar en Donald Trump,“ sagði Thiel.

Hann styður sjálfur hjónabönd samkynhneigðra. Hann segist þó telja að barátta fólks fyrir ókyngreindum klósettum, eins og hefur verið mikið til umræðu meðal annars í Norður-Karólínu, sé aðeins hliðarspor í raunverulegri stjórnmálaumræðu um efnahags- og utanríkismál segir í frétt Washington Post.

„Þegar ég var barn fjallaði stjórnmálaumræðan um það hvernig við ætluðum að sigrast á Sovétríkjunum. Við unnum þá baráttu. Nú er okkur sagt að stóra umræðan sé um það hver fái að nota tiltekin klósett. Þetta er afvegaleiðing. Hverjum er ekki sama? Auðvitað eru allir Bandaríkjamenn einstakir, hver á sinn hátt,“ segir Thiel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert