Skera upp herör gegn hatursglæpum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Saksóknurum í Bretlandi hefur verið gert að fara fram á þyngri refsingar yfir þeim sem gerast sekir um hatursglæpi. Stefnubreytinguna má rekja til fjölgunar hatursglæpa í Bretlandi í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu, Brexit.

BBC greinir frá málinu en þar kemur fram að 2,4 milljónum punda hafi verið varið til aukins öryggisviðbúnaðar löggæsluyfirvalda við trúarbyggingar í landinu. Tilkynnt hefur verið um fleiri hatursglæpi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem var haldin hinn 23. júní sl. Hafa yfirvöld áhyggjur af vaxandi útlendingahatri og rasisma í landinu.

BBC hefur eftir innanríkisráðuneyti Bretlands að aðgerðaáætlun vegna aukningar hatursglæpa miði að því að fjölga tilkynningum um hatursglæpi og vernda fórnarlömb sem fyrir því verða. Saksóknarar munu fá nýjar leiðbeiningar um brot sem taka til trúar- eða kynþáttalegra hatursglæpa.

Eins verða þeir hvattir til þess að fara fram á þyngri refsingar yfir þeim sem gerast sekir um slíka glæpi með það fyrir augum að fá dómstóla landsins til að þyngja dóma í málaflokknum.

Fyrir helgi birti lögreglustjóraráð Bretlands (NPCC) tölur yfir fjölda hatursglæpa sem tilkynntir voru til lögreglu í Eglandi, Wales og Norður-Írlandi á fjögurra vikna tímabili. Rúmlega sex þúsund hatursglæpir voru tilkynntir á tímabilinu en um er að ræða fjórar vikur frá miðjum júnímánuði.

Flestir hatursglæpir voru tilkynntir 25. júní, daginn eftir að úrslitin voru kunngerð, og voru tilfellin 289 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert