Fyrsta barnið með smáheila sem fæðist í Evrópu

Zika-veiran berst með moskítóflugum og er talin geta verið orsök …
Zika-veiran berst með moskítóflugum og er talin geta verið orsök smáheila hjá börnum mæðra sem smitast hafa af veirunni. AFP

Fyrsta barnið með smáheila af völdum Zika-veirunnar, sem fæðist í Evrópu, kom í heiminn á sjúkrahúsi á Spáni í dag. Móðir barnsins sýktist af veirunni á ferðalagi erlendis. Spænsk yfirvöld hafa neitað að segja hvar hún var á ferðinni, en AFP-fréttastofan hefur eftir heimildamanni á sjúkrahúsinu að hún hafi verið í Suður-Ameríku þar sem Zika-veiran er útbreidd.

„Engar lífgunaraðgerðir voru nauðsynlegar,“ sagði Felix Castillo, yfirlæknir nýburadeildarinnar á  Vall d'Hebron-sjúkrahúsinu í  Barcelona, og bætti við að lífsmörk barnsins væru eðlileg.

Ekki fæst gefið upp hvors kyns  barnið er, en stöðugt er fylgst með heilsu þess. Fyrstu rannsóknir benda til að þess að höfuð barnsins sé minna en annarra nýbura, og að það sé með smáheila, að sögn Castillo sem segir barnið hafa komið í heiminn með keisarauppskurði eftir 40 vikna meðgöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert