Meintur raðmorðingi ákærður fyrir fleiri árásir

Lundúnir.
Lundúnir. AFP

Meintur raðmorðingi, sem hefur verið sakaður um að myrða fjóra menn sem hann kynntist á netinu, hefur verið ákærður fyrir að hafa ráðist á átta menn til viðbótar. Stephen Port, 41 árs, er m.a. grunaður um að hafa fengið menn sem hann kynntist á stefnumótasíðum til að koma heim til sín, þar sem hann eitraði fyrir þeim og beitti þá ofbeldi.

Í fyrstu var Port ákærður fyrir að hafa eitrað fyrir og myrt fjóra menn, en hann hefur nú einnig verið ákærður fyrir brot gegn átta öðrum mönnum. Nýju ákærurnar eru vegna sex eitrana, sjö nauðgana og fjögurra kynferðisárása.

Port, sem býr í Lundúnum, hefur neitað sök en brotin eru sögð hafa átt sér stað á árunum 2011 til 2015.

Réttarhöld yfir Port hefjast í október en þeim var seinkað um sex mánuði vegna umfangs lögreglurannsóknarinnar.

Port er sem fyrr segir sagður hafa kynnst mönnunum á stefnumótasíðum fyrir samkynhneigða og boðið þeim heim til sín, þar sem hann er sagður hafa eitrað fyrir þeim með „partýefninu“ GHB. Fjögur meint fórnarlömb Port, sem öll voru á þrítugsaldri, létust vegna ofskömmtunar og voru skilin eftir í eða nærri kirkjugarði í austurhluta Lundúna.

Fyrsta fórnarlambið fannst 19. júní 2014 og hið síðasta 14. september sl. en nokkur tími leið þar til lögregla uppgötvaði tengslin milli hinna látnu. Málunum var vísað til morðdeildar Lundúnalögreglunnar 14. október sl.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert