Trump með meira fylgi en Clinton

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, mælist með 2% meira fylgi en …
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, mælist með 2% meira fylgi en Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrata í nýjustu könnun Reuters. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, mældist með tveimur prósentum meira fylgi en Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrataflokksins, í nýrri skoðanakönnun sem Ipsos vann fyrir Reuters-fréttastofuna. Er þetta í fyrsta skipti frá því í maímánuði sem Trump mælist með meira fylgi en Clinton.

Aukið fylgi Trumps kemur í kjölfar flokksþings Repúblikanaflokksins í síðustu viku þar sem Trump tók formlega við útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokksins. Þá hefur nokkurn skugga borið á flokksþing demókrata, sem nú fer fram og þar sem Clinton mun taka við útnefningu síns flokks, vegna klofnings innan Demókrataflokksins og afsagnar formanns hans.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 22.-26. júlí og sögðust 39% aðspurðra styðja Trump en 37% Clinton. 24% sögðust þá styðja hvorugt þeirra. 4% skekkjumörk voru gefin í könnuninni, sem þýðir í raun að Clinton og Trump teljast njóta jafns fylgis.

Clinton var með 3% forskot á Trump sl. föstudag, sem telst einnig innan skekkjumarka.

Clinton hefur haft töluvert forskot á Trump stærstan hluta kosningabaráttunnar. Það var ekki fyrr en samhljómur virtist nást með stefnumálum Trumps og Repúblikanaflokksins sem hann tók að saxa á fylgi Clinton.

Fylgi frambjóðendanna mældist jafnt snemma í maí, þegar aðrir frambjóðendur sem sóttust eftir útnefningu Repúblikanaflokksins heltust úr lestinni. Þá mældist Trump með 0,3% meira fylgi en Clinton.

Fylgi hans dalaði hins vegar á ný vegna deilna við flokksforystuna eftir umæli sem hann lét falla um rómanska einstaklinga, múslima og innflytjendur. Trump hefur hins vegar sótt á að nýju eftir flokksþingið í síðustu viku.

Reuters-fréttastofan segir demókrata nú vonast til að þess að framboð Clinton hljóti sambærilegan meðbyr, þrátt fyrir erfiðleika við upphaf flokksþingsins. Hafa skoðanakannanir yfirleitt sýnt að forsetaframbjóðendur njóta aukins stuðnings í skoðanakönnunum sem gerðar eru í kjölfar þess að þeir hljóta formlega útnefningu á flokksþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert