Berjast gegn skemmdum á Kínamúrnum

Kínamúrinn.
Kínamúrinn. mbl.is/Brynjar Gauti

Yfirvöld menningarmála í Kína hafa heitið því að berjast gegn skemmdum á Kínamúrnum.

Stjórnstöð menningarmála í landinu mun hefja reglulegar ástandskannanir og handahófskennt eftirlit á múrnum, til að tryggja að lögum um vernd múrsins sé framfylgt.

Hingað til hafa lögin lítið gert honum til verndar, því þrátt fyrir að þættir á borð við vinda og regn beri ábyrgð á skemmdum þriðjungs hluta múrsins sem er frá tímabili Ming-ættarinnar, segja yfirvöld sumar skemmdir múrsins vera af mannavöldum.

Þorpsbúar í nágrenni múrsins eru sagðir stela reglulega steinum úr honum, til að nota sem byggingarefni eða selja. „Þetta eru ekki stórvægilega skemmdir, en ef þú leggur saman allar litlu skemmdirnar er þetta mjög alvarlegt mál“, hefur Guardian eftir Dong Yaohui, formanni félagasamtaka sem annt er um múrinn. „Vandamálið er að við eyðum miklum fjármunum í að lagfæra múrinn í stað þess að varðveita hann.“

Elstu hlutar Kínamúrsins eru frá þriðju öld fyrir krist en hlutinn sem byggður var á tímabili Ming-ættarinnar, frá 1368 til 1644, er sá mest heimsótti, enda norðan við höfuðborgina, Peking, og því margir ferðamenn sem skoða þann hluta. Milljónir heimsækja Ming-hluta múrsins árlega og fylgja heimsóknunum ýmsar skemmdir, á borð við veggjakrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert