Danskar konur ofbeldisfyllri en áður

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar

Frá árinu 1980 hefur hlutfall þeirra lögbrota í Danmörku sem framin eru af konum tvöfaldast úr 10 í 20 prósent.

Frá þessu greinir DR sem segir kvenkyns afbrotamönnum hafa fjölgað úr um 5.000 árið 1980 í yfir 9.000 árið 2015. Mörg þessara brota hafi verið ofbeldisbrot. Í fyrra gerðist það í fyrsta skipti að jafnmargar konur voru dæmdar fyrir manndráp af gáleysi eða líkamsárásir og karlar. Árið 1980 voru 186 konur dæmdar fyrir ofbeldisbrot en árið 2015 voru þær 1.106 talsins.

Afbrotafræðingurinn Annika Snare sagði DR að tölurnar sýndu „myrkari hliðar kvenfrelsis“.

„Konur eru mikið meira utan heimila sinna en áður. Þær eru úti í næturlífinu, þær eru virkari. Á sama tíma hefur tíðni glæpa ungra karlmanna fallið gríðarlega síðustu 20 árin. Strákarnir sitja heima og spila í tölvunum sínum.“

Britta Kyvsgaard, hjá danska dómsmálaráðuneytinu sagði DR að minna kynjabil í glæpatíðni kæmi til vegna mun færri mála hjá karlmönnum, ekki vegna fjölgunar mála hjá kvenþjóðinni. Hún sagði tölfræðibreytinguna einnig geta hafa komið til vegna þess að fólk sé líklegra til að tilkynna glæpi kvenmanna en áður.

Þrátt fyrir að konur fremji fleiri ofbeldisglæpi en áður nær fjölgunin ekki til manndrápa og morða í sama mæli. Í fyrra voru 34 karlar dæmdir sekir um morð í Danmörku en aðeins fimm konur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert