Kynáttunarvandi er ekki geðsjúkdómur

Höfundar rannsóknarinnar segja ekki rétt að flokka kynáttunarvanda sem geðröskun. …
Höfundar rannsóknarinnar segja ekki rétt að flokka kynáttunarvanda sem geðröskun. Leggja þeir til að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin geri bót á þegar flokkunarkerfi stofnunarinnar verður endurskoðað 2018. AFP

Það sem hefur verið kallað kynáttunarvandi á Íslandi er ekki geðröskun, ef marka má niðurstöður rannsóknar sem kynnt var í Mexíkó í dag. Ofbeldi og samfélagsleg höfnun eru orsök andlegra erfiðleika meðal transfólks, ekki kynvitund þeirra, samkvæmt rannsókninni sem birtist í tímaritinu The Lancet Psychiatry.

„Ef þetta er ekki sjúkdómur núna, þá var þetta það aldrei. Það ætti að vera ljóst,“ sagði Eduardo Madrigal, forseti Mexican Association of Psychiatry, á blaðamannafundi.

Rannsóknin var framkvæmd í apríl og fram í ágúst 2014 en þátttakendur voru 250 fullorðnir transeinstaklingar sem voru að gangast undir meðferð við Condesa Specialized Clinic í Mexíkóborg.

Í viðtölum við þátttakendur kom í ljós að 83% höfðu upplifað erfiðleika vegna kynvitundar sinnar á kynþroskaskeiðinu.

Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar, en hún verður endurtekin í Brasilíu, Frakklandi, Indlandi, Líbanon og Suður-Afríku.

Niðurstöðurnar verða kynntar þegar ellefta endurskoðun flokkunarkerfis Aljóðaheilbrigðisstofnunarinnar fer fram árið 2018. Kerfið kallast International Classification of Diseases og er notað við læknisfræðilegar greiningar af heilbrigðisstarfsfólki út um allan heim.

„Þessi endurflokkun mun ekki aðeins leiða til umræðu um nýja heilbrigðisstefnu þannig að transsamfélagið fái betri aðgang að heilbrigðisþjónustu, heldur mun hún einnig draga úr þeim fordómum og þeirri höfnun sem það verður fyrir,“ sagði Ana Fresan, einn af höfundum rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert