Sakaður um föðurlandssvik

Donald Trump, forsetaframbjóðandi bandaríska Repúblikanaflokksins, skoraði í gær á stjórnvöld í Rússlandi að hafa uppi á tölvupósti í eigu Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata. Ummælin féllu á blaðamannafundi og hafa vakið hörð viðbrögð.

Trump hefur verið sakaður um að hvetja til þess að erlendir njósnarar hefðu afskipti af forsetakosningunum og jafnvel um föðurlandssvik. „Rússland, ef þú ert að hlusta. Ég vona að þú getir fundið þessa 30 þúsund tölvupósta sem eru týndir. Ég held að ykkur yrði umbunað vel af fjölmiðlum okkar,“ sagði Trump. Vísaði hann þar til 30 þúsund tölvupósta í persónulegu netfangi Clintons sem var eytt á þeim forsendum að um einkapóst væri að ræða.

Clinton hefur verið sökuð um að hafa notað persónulegt netfang sitt fyrir tölvupóst sem tengdist störfum hennar sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna á meðan hún gegndi því embætti. Haft er eftir Jake Sullivan, ráðgjafa Clintons, í frétt AFP að þetta sé líklega í fyrsta sinn sem forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum hafi hvatt erlent ríki til þess að stunda njósnir um pólitískan andstæðing sinn. Málið snerist ekki bara um stjórnmál heldur þjóðaröryggi.

Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakaði tölvupóstnotkun Clintons en komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að ákæra hana vegna málsins. Hins vegar hefði tölvupóstnotkun hennar verið mjög kærulaus.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka