Strandvörður syndir fyrir Sýrland

Á meðan bestu sundmennirnir frá Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu eru í stífum æfingabúðum sem íþróttasambönd þeirra skipuleggja þurfa sundmenn frá smærri ríkjum að æfa einir á báti. Sú er raunin með Azad Al-Barazi, sem keppir fyrir hönd Sýrlands á Ólympíuleikunum í Ríó.

Hann flutti til Los Angeles þegar hann var sjö ára og æfir í heimaborg sinni sex sinnum í viku, langt í burtu frá átökunum í Sýrlandi þar sem foreldrar hans ólust upp. Til að fjármagna þátttöku sína á leikunum starfar hann sem strandvörður.

Sýrlenski fáninn verður hvergi sjáanlegur á klæðnaði hans á Ólympíuleikunum. „Ég vil ekki að stjórnmál komi við sögu,“ sagði Azad Al-Barazi. „Ég vil hafa þetta eins hlutlaust og mögulegt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert