35 Kúrdar létust í átökum við Tyrkja

Tyrkneskur hermaður stendur vörð við bæ í Tyrklandi þar sem …
Tyrkneskur hermaður stendur vörð við bæ í Tyrklandi þar sem átök brutust út á milli Kúrda og Tyrkja fyrir örfáum dögum síðan. AFP

35 Kúrdar létust í dag í átökum á milli Kúrda og tyrkneska hersins við herstöð í Suðaustur-Tyrklandi nálægt landamærum Tyrklands og Íraks.

Vopnahlé hafði staðið yfir á milli fulltrúa kúrdíska verkamannaflokksins (PKK) og tyrkneska hersins en því lauk í júlí á síðasta ári og hafa átök staðið yfir með reglulegu millibili síðan.

Í nótt sást til kúrdískra hermanna nálægt herstöð tyrkneska hersins þar sem þeir voru að færa sig nær herstöðinni. Tyrkneski herinn gerði þá loftárás á Kúrdana þar sem 23 létu lífið. Tók svo við landbardagi þar sem 12 Kúrdar létust.

Kúrdíski verkamannaflokkurinn var stofnaður árið 1984 og hefur barist gegn því sem hann kallar kerfisbundna mismunun og misnotkun Tyrkja á Kúrdum. Frá því að vopnahléinu lauk í fyrra hafa hundruð hermanna látið lífið í átökum á milli fylkinganna.

Receep Erdogan er nú í óðaönn að endurskipuleggja tyrkneska herinn eftir misheppnað valdarán hersins hinn 15. júlí sl.

Um 1.700 hermenn hafa verið reknir úr hernum. Þá hefur Erdogan látið reka um 40% af öllum herforingjum hersins, samkvæmt því sem kemur fram í frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert