Endurómur myrkrar fortíðar

Amnon Weinstein heldur á fiðlunni sem hann kallar Auschwitz-fiðluna. Hljóðfærið …
Amnon Weinstein heldur á fiðlunni sem hann kallar Auschwitz-fiðluna. Hljóðfærið var í eigu manns sem var fangelsaður í útrýmingarbúðunum í seinni heimstyrjöldinni. AFP

Hendur Guys Braunsteins titra undan þyngd sögunnar, er hann kemur fiðlunni fyrir undir hökunni og ljósin í þéttsetnum tónleikasalnum endurkastast af við hljóðfærisins. „Ég hef spilað á þúsundum tónleika, en ég hef aldrei verið jafn meyr né skolfið jafn mikið og þegar ég tók fiðluna frá Auschwitz í höndina,“ segir Braunstein að viðburðinum loknum.

Um var að ræða tónleika í Tel Aviv, þar sem einleikarinn kom fram ásamt kammerhljómsveit frá Jerúsalem, en tónleikarnir voru liður í verkefni sem gengur út á að safna og lagfæra fiðlur sem komu við sögu í Helförinni.

Fiðlan sem Braunstein spilaði á var í eigu manns sem var þvingaður til að spila á hljóðfæri fyrir fanga í útrýmingarbúðunum í Auschwitz þegar þeir fóru til vinnu á morgnana og þegar þeir komu aftur að kvöldi.

Í tónleikasalnum í Tel Aviv mátti sjá tár á hvörmum tónleikagesta er tónlistarfólkið spilaði verk eftir Gustav Mahler.

„Lyktin var öðruvísi,“ segir Braunstein, sem spilar með Fílharmóníuhljómsveit Berlínar en hefur tvisvar tekið þátt í verkefninu. „Ég fékk það á tilfinninguna á meðan ég spilaði að einhver ræki flein í gegnum hjarta mitt, af því að ég þekki söguna,“ segir hann.

Israel Camerata Jerusalem Orchestra spilar á hljóðfæri sem tilheyra verkefninu …
Israel Camerata Jerusalem Orchestra spilar á hljóðfæri sem tilheyra verkefninu Fiðlur vonar. AFP

Verkefnið Fiðlur vonar er hugarfóstur hins 76 ára Ísraelsmanns Amnons Weinsteins, en tónleikar hafa meðal annars verið haldnir í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Weinstein er fiðlusmiður sem fæddist inn í fjölskyldu gyðinga frá Litháen sem komust lifandi frá Helförinni. Hann hefur varið síðustu tuttugu árum í vinnustofu sinni í Tel Aviv, þar sem lyktin af lakki hangir í loftinu, og gert við fiðlur sem eru oft í miður góðu ástandi.

Fiðlusmiðurinn vonast til þess að sonur hans, Avshalom, feti í fótspor hans.

„Það var spilað á þessa fiðlu við hrúgur af mannslíkum,“ segir Weinstein um hljóðfærið sem Braunstein mundaði á tónleikunum. „Það sem hún hefur séð myndi gera mann brjálaðan.“

Fiðlusmiðurinn heldur á fiðlu sem ber hakakrossinn; merki nasista.
Fiðlusmiðurinn heldur á fiðlu sem ber hakakrossinn; merki nasista. AFP

Allar eiga sína sögu

Markmið Weinsteins er að hafa uppi á öllum fiðlum sem komu við sögu í Helförinni og gera þær upp þannig að hægt sé að spila á þær á ný. „Ég vil að það sé spilað á þessar fiðlur, að það heyrist sem þær hafa að segja.“

Safn hans telur nú alls 60 hljóðfæri, bæði fiðlur og selló, en hvert og eitt á sína sögu. Margar þeirra eru harmþrungnar.

Flestar fiðlurnar voru smíðaðar í Þýskalandi eða gömlu Tékkóslóvakíu; í sumum tilfellum hefur nafn eigandans verið rist inn í hljóðfærið en nokkrar hafa verið merktar með Davíðsstjörnunni.

Hljóðfærin sem tilheyra verkefninu telja nú 60, en um er …
Hljóðfærin sem tilheyra verkefninu telja nú 60, en um er að ræða bæði fiðlur og selló. AFP

Weinstein ver klukkustundum við tölvuna, í leit að fiðlum, en tölvan er eina ummerkið um nútímann á vinnustofu sem virðist tileyra öðru tímabili. Stundum setur fólk sig í samband við hann ef það telur sig vita af fiðlu sem gæti kveikt áhuga hans.

Nýlega afhenti Frakki honum fiðlu sem hann hafði erft frá föður sínum. Faðirinn hafði fengið hljóðfærið að gjöf frá gyðingi sem var á leið í Drancy-búðirnar í Frakklandi. Þaðan voru menn sendir áfram í útrýmingarbúðir.

„Ég hef ekkert að gera með [fiðluna] þangað sem ég er að fara,“ sagði maðurinn.

Weinstein að störfum. Hann vonar að sonur sinn feti í …
Weinstein að störfum. Hann vonar að sonur sinn feti í fótspor sín. AFP

Fiðlur og klarínett voru vinsæl hljóðfæri í gyðingasamfélögum Mið- og Austur-Evrópu á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, þar sem klezmer-tónlistarhefð Ashkenazi-gyðinganna dafnaði.

Yad Vashem-Helfararsafnið og -rannsóknarmiðstöðin varðveitir eigið safn hljóðfæra og hefur unnið með Weinstein. Það lánaði verkefninu fiðlu, sem notuð var á tónleikum í Bandaríkjunum.

„Í öllum vitnisburði um Helförina er að finna fiðlu-sögu; sögu af manni sem grípur fiðlu og, þrátt fyrir kulda og hungur og flær, spilar,“ segir Weinstein. „Og þeir sem hlýða á hann geta flúið. Þeir flytjast annað. Þeir fljúga, eins og í málverki eftir Chagall.

Það er ekkert annað sem getur vakið rödd þeirra á ný, og það varir eftir að við erum horfin á braut.“

Síðust tvo áratugi hefur Weinstein helgað líf sitt verkefninu Fiðlur …
Síðust tvo áratugi hefur Weinstein helgað líf sitt verkefninu Fiðlur vonar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert