Staðfest samvist leidd í lög á Ítalíu

Frá hinsegin dögum í Mílanó fyrr í sumar.
Frá hinsegin dögum í Mílanó fyrr í sumar. AFP

Í gær tóku gildi lög á Ítalíu sem heimila staðfesta samvist einstaklinga af sama kyni. Fjöldi para hefur nú þegar sótt um staðfestingu á samvist sinni og verður fyrsta staðfestingin veitt innan 10 daga, sem er tíminn sem skráningin tekur í kerfinu.

Fyrsta parið til að skrá sig var 53 ára gamall kennari að nafni Margherita og kærasta hennar til 28 ára. Sóttu þau um skráningu á miðvikudaginn á spítala í Mílanó þar sem Margherita dvelur vegna alvarlegra veikinda. 

Lögin voru samþykkt á ítalska þinginu í maí á þessu ári eftir harða baráttu á milli kaþólsku kirkjunnar og baráttufólks fyrir réttindum samkynhneigðra. Er Ítalía síðasta vestræna ríkið til að viðurkenna lagalega stöðu samkynhneigðra para. Baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks er þó ekki lokið í landinu því lögin heimila ekki hinsegin fólki að ættleiða börn.

Sjá frétt The Local.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert