Stúlkan fannst látin í baðkarinu

Danski fáninn.
Danski fáninn. Ljósmynd/Norden.org

Átta ára stúlka fannst látin í baðkari á heimili sínu á Fjóni í Danmörku um miðjan dag á þriðjudaginn. Við hlið stúlkunnar fannst meðal annars blóðugur hnífur og piparsprey. Faðir hennar er grunaður um morðið en hann lá drukkinn í sófa á heimilinu þegar lögregla kom á vettvang. Hafði hann gert tilraun til að svipta sig lífi.

Maðurinn hringdi í móður stúlkunnar og sagði henni frá því að hann hefði myrt dóttur þeirra. Þau höfðu nýlega skilið og var stúlkan í heimsókn hjá föður sínum. Konan hringdi þegar í stað í föður sinn sem gerði lögreglu viðvart.

Haft er eftir lögreglu á vef Berlinske Tiderne að aðkoman hafi verið hræðileg. Bak við lokaðar dyr, sem þaktar voru blóði, lá lík stúlkunnar í baðkari. Ekki liggur fyrir hvort hún hafi verið myrt í herberginu en talið er ljóst að hún hafi verið látin í að minnsta kosti tíu klukkustundir þegar lögregla kom á vettvang.

Faðirinn var fluttur á sjúkrahús en hann er ekki í lífshættu vegna áverkanna sem hann veitti sér sjálfur. Hann fannst liggjandi í sófa á heimilinu. Var hann aðeins klæddur nærbuxum og lyktaði hann af áfengi. Hann hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna langt gæsluvarðhald.

Ekki liggur fyrir af hverju hann myrti dóttur sína en lögregla telur að það tengist skilnaði foreldranna og forræðisdeilu þeirra. „Vilt þú ekki bara taka byssuna þína og skjóta mig beint í andlitið. Hún lét mig gera það,“ sagði hann meðal annars við yfirheyrslu fyrr í vikunni. Ekki liggur fyrir hver „hún“ er.

Móðirin, sem er fertug, hefur fengið áfallahjálp. Stúlkan var eina barn hennar en maðurinn á nokkur börn úr fyrri samböndum. Móðir stúlkunnar hafði óskað eftir fullu forræði yfir stúlkunni og segir barnsföður sinn hafa beitt sig og stúlkuna andlegu og líkamlegu ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert