Rannsaka hatursglæpi á netinu

mbl.is/Ernir

Bresk stjórnvöld hyggjast setja á stofn teymi lögregluþjóna sem mun hafa því hlutverki að gegna að rannsaka hatursglæpi á netinu, þar á meðal á samfélagsmiðlum á borð við Twitter og Facebook.

Teymið mun hafa aðsetur í Lundúnum. Fimm lögregluþjónar munu meðal annars styðja fórnarlömb netáreitni og jafnframt rannsaka slík tilfelli, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Teymið mun kosta um 1,7 milljónir punda, sem jafngildir um 262 milljónum króna, til næstu tveggja ára, en það hefur þegar fengið 452 þúsund punda fjárframlag frá breska innanríkisráðuneytinu.

Talsmaður skrifstofu borgarstjórans í Lundúnum segir að „enginn staður sé fyrir hatur“ í borginni. Yfirvöld hafi „enga þolinmæði“ fyrir áreitni á netinu.

Talið er að teymið muni taka til starfa á komandi mánuðum. 

Borgaryfirvöld segja að þeir sem gerist sekir um áreitni eða einelti á netinu geri það jafnan í skjóli nafnleyndar. Þannig sé erfitt að láta þá svara til saka. Teymið mun meðal annars aðstoða venjulega lögregluþjóna við að ná í skottið á slíkum mönnum. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert