Hélt að þetta væri ekki hægt án lyfja

Suðurafríski hlauparinn Wayde van Niekerk  viðurkennir að hann hafi haldið að ekki væri hægt að hlaupa jafn hratt og hann gerði í Ríó í vikunni án þess að nota ólögleg lyf.

Niekerk setti nýtt heimsmet í 400 metra hlaupi á Ólymp­íu­leik­un­um í Ríó. Metið hafði staðið frá því fyr­ir alda­mót, eða frá ár­inu 1999. Wayde van Niekerk frá Suður-Afr­íku hljóp á 43,03 sek­únd­um. Er hann þá hand­hafi heims- og ólymp­íu­meta auk þess að vera bæði heims- og ólymp­íu­meist­ari í grein­inni en Niekerk sigraði í grein­inni á HM í fyrra. 

Met Banda­ríkja­manns­ins Michaels John­sons var 43,18 sek­únd­ur og var sett á heims­meist­ara­mót­inu í Sevilla á Spáni árið 1999. 

Van Niekerk er 24 ára gam­all og hafði best hlaupið á 43,48 sek­únd­um þar til í hlaupinu. Árang­ur hans kom nokkuð á óvart ekki síst vegna þess að Niekerk hljóp á 8. braut í úr­slita­hlaup­inu. Þykir það ekki mjög heppi­legt, meðal ann­ars vegna þess að þá sér hlaup­ar­inn illa hvernig keppi­naut­un­um vegn­ar. 

Að sjálfsögðu fóru strax af stað sögur um ólögleg lyf en van Niekerk segir að þetta sýni að það er hægt að ná frábærum árangri án þess að nota lyf. „Ég held að þetta geti geti verið öðrum íþróttamönnum sem vilja taka þátt í leikunum gott fordæmi um hvað er hægt að gera án lyfja,“ segir hlauparinn. 

En viðurkennir um leið að hann hafi áður talið útilokað að hlaupa 400 metra á skemmri tíma en 44 sekúndum án þess að nota slík lyf. Lykilinn að velgengni minni er hörkuvinna og eldmóður. 

Van Niekerk hef­ur einnig hlaupið 200 metra hlaup und­ir 20 sek­únd­um og 100 metra hlaup und­ir 10 sek­únd­um.

Hann segir að Usain Bolt hafi hvatt hann til dáða en hann hafi fengið ráð frá Jamaíkamanninum fyrr á árinu. Bolt hafi sagt honum að grípa þau tækifæri sem bjóðist. „Það er þess vegna sem ég reyni að leggja mig allan fram því ég vil ekki láta tækifærin renna mér úr greipum á meðan ég er í því formi sem ég er í núna.“

Þjálfari van Niekerks er Tannie Ans, 74 ára gömul amma sem þjálfar marga afreksíþróttamenn. Hann segir að ómögulegt sé að segja til um það fyrirfram hvað Ans lætur hann gera. „Jafnvel ég get ekki útskýrt æfingarnar sem hún leggur fyrir mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert