„Gandálfur annast ekki brúðkaup“

Ian McKellan í hlutverki Gandálfs.
Ian McKellan í hlutverki Gandálfs. Mynd/Wikipedia

Breski leikarinn Ian McKellan hafnaði rausnarlegu 1,5 milljóna dollara boði um að gefa saman brúðhjón klæddur sem Gandálfur. McKellan, sem lék Gandálf eftirminnilega í stórmyndum um Hringadróttinssögu Tolkiens, hafnaði boðinu. Það er Telegraph sem greinir frá.

Er það sagður vera milljónamæringurinn Sean Parker, einn stofnenda tónlistarveitunnar Napster og fyrrverandi forseti Facebook, sem bauð McKellen féð fyrir verkefnið. Parker gekk að eiga söngkonuna Alexöndru Lenas árið 2013 en sannkallað Tolkien-þema var í brúðkaupinu. Brúðkaupið var haldið í Kaliforníu og kostaði 7,5 milljónir dollara en tímaritið Forbes metur Parker til virðis 1,8 milljarða króna. Söngvarinn Sting og leikkonan Emma Watson voru á meðal gesta en, því miður fyrir brúðhjónin, var McKellen þó fjarri góðu gamni.

„Mér var boðin ein og hálf milljón til að gifta mjög frægt par í Kaliforníu, sem ég hefði ef til vill íhugað, en ég hefði þurft að gera það í múnderingu Gandálfs,“ sagði hinn 77 ára McKellan en hann gaf saman þau Patrick Stewart, leikara úr Star Trek, og Sunny Ozell árið 2013. „En ég sagði, nei því miður, Gandálfur annast ekki brúðkaup.“

McKellan kom fram í Konunglega leikhúsinu í Newcastle í gær þar sem hann fer með hlutverk í verki Harolds Pinters, Einskis manns land. Sagði hann fyrir utan leikhúsið að það hefði verið mjög ríkur maður sem bauð honum peningana, það væri það eina sem hann vissi. „Ég klæði mig ekki upp í búning, ekki nema það sé fyrir leikrit eða hlutverk á stöðum sem þessum,“ sagði McKellan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert