Getur ekki varið verk Hollandes

Arnaud Montebourg ávarpar stuðningsmenn í dag.
Arnaud Montebourg ávarpar stuðningsmenn í dag. AFP

Fyrrverandi efnahagsráðherra Frakklands, Arnaud Montebourg, tilkynnti í dag að hann stefndi á þátttöku í forvali Sósíalistaflokksins vegna forsetakosninganna í landinu á næsta ári.

Tveir aðrir fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Francois Hollande Frakklandsforseta hafa lýst yfir þátttöku í forvalinu sem fram fer í janúar. Þau Cecile Duflot, fyrrverandi umhverfisráðherra, og Benoit Hamon, fyrrverandi menntamálaráðherra.

„Ég býð mig fram vegna þess að ég get engan veginn stutt Francois Hollande,“ sagði Montebourg á fundi með stuðningsmönnum í Bourgogne. Ekki væri hægt að verja fimm ára valdatíð forsetans sem einkennst hefði af efnahagserfiðleikum og gagnrýni á viðbrögð stjórnvalda við hryðjuverkaárásum í landinu.

Hvatti Montebourg Hollande til þess að íhuga vandlega hvort hann gæfi áfram kost á sér. Sagðist hann ætla sem forseti að draga Frakkland út úr sáttmálum á vettvangi Evrópusambandsins sem þjónuðu ekki hagsmunum landsins.

Hollande hefur sagt að hann muni tilkynna um áform sín fyrir árslok en fylgi hans mælist minna en hjá nokkrum forseta Frakklands í seinni tíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert