Kerry og Lavrov fundi um málefni Sýralands

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Uhuru Kenyatta, forseti Kenýa, á …
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Uhuru Kenyatta, forseti Kenýa, á fundi sínum í Nairobi í dag. Kerry telur líklegt að þeir Sergei Lavrov fundi um málefni Sýrlands. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist í dag telja mjög líklegt að hann muni funda með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, um stöðu mála í Sýrlandi.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi hafa undanfarnar vikur rætt um að reyna að finna grundvöll fyrir samstarfi ríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams í Sýrlandi.

„Við höfum átt í viðræðum undanfarnar vikur og ég vonast til að þeim sé að ljúka, hver sem niðurstaðan annars mun verða,“ sagði Kerry við fréttamenn í heimsókn sinni til Kenýa.

„Hópar okkar munu hittast á næstu dögum. Það fer svo eftir niðurstöðum viðræðnanna, en það er mögulegt og jafnvel líklegt að við Lavrov fundum.“

Vera kynni að einhver niðurstaða um mögulegt samstarf liggi fyrir fyrir mánaðamót, Kerry kvaðst þó ekki geta sagt til um hvort svo verði, en hann leyfi sér að vona.

Bandaríkjamenn hafa stutt hópa uppreisnarmanna í Sýrlandi á meðan Rússar hafa stutt stjórnarher Bashar al-Assad, forseta landsins, í stríðinu í Sýrlandi.

Um 280.000 manns hafa farist frá því að stríðið hófst fyrir fimm árum síðan og um það bil helmingur landsmanna hefur flúið heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert