Kynferðisleg áreitni og einelti innan lögreglunnar

AFP

Tæplega helmingur kvenna í áströlsku lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Þetta kemur fram í skýrslu sem birt var í dag um lögregluna sem vinnustað.

Í skýrslunni kemur fram að yfir 60% lögreglumanna af báðum kynjum hafa orðið fyrir einelti á vinnustað. Höfundur skýrslunnar, Elizabeth Broderick, segir brýna nauðsyn að gera bragarbót á ástandinu innan lögreglunnar. 46% kvenna í lögreglunni og 20% karla hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað á undanförnum fimm árum. Það er tæplega tvöfalt meira en landsmeðaltal á vinnustöðum. 62% karla og 66% kvenna hafa orðið fyrir einelti á vinnustað á sama tímabili.

Í skýrslunni „Cultural Change: Gender Diversity and Inclusion in the Australian Federal Police“ er kvörtunarferlið vegna slíks ofbeldis einnig gagnrýnt. Töldu ýmsir lögreglumenn að ef þeir myndu kvarta undan áreitni í starfi þá hefði það áhrif á möguleika þeirra um framgang í starfi.

Konur kvörtuðu undan því að það hafi reynst þeim erfitt að falla inn í hópinn sem sé mjög karllægur. Yfirmaður lögreglunnar, Andrew Colvin, viðurkennir að hlutirnir verði að breytast og hann bað starfsfólk sitt afsökunar þegar skýrslan var kynnt í dag. Hann segir að hegðun sem þessi verði ekki liðin og breytingum verði komið á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert