Hvað er það mikið í ramen-núðlum?

Núðlur - mynd úr safni.
Núðlur - mynd úr safni. AFP

Ramen-núðlur eru það heitasta í bandarískum fangelsum í dag og eru orðnar verðmætari en tóbak, samkvæmt nýrri rannsókn.

Michael Gibson-Light, doktorsnemi í félagsfræði í háskólanum í Arizona, vann rannsóknina og er það niðurstaða hans að ástæður vinsælda núðlanna sé hversu ódýrar þær eru, bragðgóðar og orkuríkar. Því séu þær vinsælasta skiptimyntin í viðskiptum fanga á milli. 

BBC tekur fram í frétt sinni um rannsóknina að hafa verði í huga að um eigindlega rannsókn er að ræða, ekki megindlega (Áhersla á lýsingar í orðum fremur en tölulegar mælingar) og að hann hafi rætt við innan við 60 fanga og starfsfólk í einu kvennafangelsi. En höfundur bendir á að þetta sé vísbending um vinsældir núðla í fangelsum almennt.

Núðlurnar eru vinsæl skiptimynt í viðskiptum innan múra fangelsins. Til að mynda í staðinn fyrir fatnað, önnur matvæli, hreinlætisvörur og jafnvel þjónustu eins og þvott og þrif.

Aðrir fangar nota núðlurnar sem gjaldmiðil í veðmálum og fótboltaleikjum. 

„Það er auðvelt að verða sér úti um [Ramen] og þær eru orkuríkar,“ segir Gibson-Light.

„Margar þeirra eyða drjúgum hluta dagsins í vinnu og við æfingar og þurfa á aukinni orku að halda,“ bætir hann við í samtali við Guardian. Þetta telur hann til marks um að fangar svelti hreinlega í bandarískum fangelsum.

Alls fóru 52,4 milljarðar Bandaríkjadala af ríkisútgjöldum í fangelsismál árið 2012 og hefur framlagið ekki haldist í hendur við fjölgun fanga. Föngum fjölgaði til að mynda um 343% frá 1980 til ársins 2013 í Bandaríkjunum. 

 Gibson-Light segir í viðtali við BBC að bæði fangar og starfsfólk í fangelsum tali um hversu minni skammtarnir eru orðnir og óttast afleiðingarnar.

„Fangar eru svo ósáttir við gæði og magn fangelsisfæðisins að þeir eru farnir að treysta á ramen-núðlur, ódýra og endingargóða fæðu, sem skiptimynt í neðanjarðarhagkerfinu,“ segir hann.

Guardian

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert