Ung kona myrt í hnífaárás

AFP

Rúmlega tvítug bresk kona lést þegar maður vopnaður hníf réðst á hana á farfuglaheimili í Ástralíu fyrir framan 30 manns.

Þrítugur Breti er alvarlega særður en árásin átti sér stað skammt frá Townsville í Queensland.

Samkvæmt BBC rannsakar lögregla hvort árásarmaðurinn, 29 ára gamall Frakki, sem er í haldi lögreglu, sé öfgasinni en vitni segja að hann hafi kallað „Allahu akbar“ (Guð er mikill) á arabísku þegar hann réðst á fólkið. 

Árásin var gerð á Shelley's Backpackers-farfuglaheimilinu í Home Hill, smábæ sem er vinsæll meðal ferðamanna sem afla sér tekna á ferðalagi með því að vinna landbúnaðarstörf. 

Bretinn sem særðist er á gjörgæsludeild í lífshættu. Hundur var drepinn í árásinni og 46 ára gamall bæjarbúi hlaut minni háttar áverka.

Aðstoðarlögreglustjórinn í Queensland, Steve Gollschewski, segir að árásarmaðurinn hafi verið ferðamaður sem hafi verið á ferðalagi um Ástralíu síðan í mars. Ekki er vitað til þess að hann tengist landinu á neinn hátt nema sem ferðamaður.

Enn sé óvíst hvað hafi gerst en maðurinn verður sendur í geðrannsókn og eins kannað hvort hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert