Branson hætt kominn í hjólreiðaslysi

Branson hefur birt myndir af sér eftir slysið.
Branson hefur birt myndir af sér eftir slysið. AFP

Breski viðskiptajöfurinn Richard Branson óttaðist um líf sitt þegar hann lenti í hjólreiðaslysi á Bresku-Jómfrúareyjum fyrr í vikunni en hann slasaðist á andliti og sleit liðbönd. Óhappið átti sér stað þegar hann var að hjóla með börnum sínum, Holly og Sam, og lenti á ójöfnu.

„Það næsta sem ég veit er að ég kastast yfir stýrið og líf mitt bókstaflega flaug fyrir augunum á mér,“ segir hinn 66 ára stofnandi Virgin í bloggfærslu. „Ég hélt virkilega að ég myndi deyja,“ segir hann enn fremur.

Branson segist telja að hjálmurinn sem hann bar á höfðinu hafi bjargað lífi sínu. Hjólið sem hann var á fór fram af kletti.

Viðskiptajöfurinn ferðaðist til Miami eftir læknisþjónustu en segist munu taka þátt í Virgin Strive Challenge, sem hann var að æfa fyrir, í næsta mánuði. Um er að ræða þrekþraun sem felur í sér hjólreiðar, fjallgöngu og hlaup.

Branson er þekktur fyrir áhættusöm uppátæki en hann hefur áður komist nærri því að fara illa. Árið 1998 neyddust hann og samferðamaður hans til að mynda til að lenda í Kyrrahafinu þegar loftbelgur þeirra missti flugið.

Viðskiptajöfurinn barðist fyrir áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu.
Viðskiptajöfurinn barðist fyrir áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert