Umdeild klósettlög felld úr gildi

Kynhlutlaus baðherbergi féllu ekki í kramið hjá íhaldsmönnum í Bandaríkjunum.
Kynhlutlaus baðherbergi féllu ekki í kramið hjá íhaldsmönnum í Bandaríkjunum. AFP

Háskólinn í Norður-Karólínu verður að leyfa transfólki að nota salerni í samræmi við eigin kynvitund samkvæmt úrskurði héraðsdómstóls. Dómari í málinu taldi svo líklegt að lögum um salerni og kynferði, sem ríkið setti fyrr á árinu, yrði hnekkt að háskólinn yrði að hætta að framfylgja þeim tímabundið.

Forsaga málsins er sú að yfirvöld í bænum Charlotte settu reglur sem heimiluðu transfólki að nota salerni í samræmi við eigin kynvitund. Það fór fyrir brjóstið á meirihluta repúblikana i ríkisþingi Norður-Karólínu sem samþykktu í kjölfarið bann við því að sveitar- og borgarstjórnir settu reglur af því tagi. Transfólk yrði að nota salerni í samræmi við kyn sem gefið var upp á fæðingarvottorði.

Lögin vöktu mikið umtal og deilur. Fjöldi fyrirtækja, íþróttaliða og skemmtikrafta ákváðu meðal annars að sniðganga Norður-Karólínu vegna þeirra.

Frétt mbl.is: Neitar að verja lög gegn transfólki

Frétt mbl.is: Skólareglur vegna transnemenda

Þrír einstaklingar stefndu ríkinu vegna laganna. Nú hefur héraðsdómari komist að þeirri niðurstöðu að stefnendurnir eigi það mikla möguleika á að sýna fram á að lögin stangist á við alríkislög að hann hefur bannað ríkisháskólanum að framfylgja lögunum.

„Í dag hefur létt á þyngslunum sem ég hef fundið fyrir brjósti mér á hverjum degi. Baráttunni er hins vegar ekki lokið. Við munum ekki unna okkur hvíldar fyrr en þessi lög mismununar lúta í gras,“ segir Joaquín Carcano sem er einn stefnendanna í málinu.

Frétt BBC af úrskurðinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert