Bjóst ekki við að þær færu í skóla

Rosie og Ruby Formosa
Rosie og Ruby Formosa Skjáskot/BBC

Síamstvíburarnir Rosie og Ruby Formosa eru orðnar fjögurra ára gamlar. Þegar þær fæddust voru kviðarhol þeirra tengd saman og þær deildu hluta af þörmunum. Þær gengust undir aðgerð nokkrum klukkustundum eftir fæðingu þar sem líkamar þeirra voru aðskildir.

Stúlkurnar hefja fljótlega skólagöngu sína og segir móðir þeirra í samtali við BBC að fyrir fjórum árum hafi hún ekki búist við að sjá þær í þessum sporum, ekki hafi verið víst að þær myndu lifa svo lengi. Angela, móðir stúlknana, segir þær vera afar spenntar að mæta í skólann.

Stúlkurnar fæddust á spítala í London í Bretlandi. Þær voru teknar með keisaraskurði eftir 34 vikna meðgöngu. Angela segir að það hafi verið foreldrunum mikið áfall þegar í ljós kom að stúlkurnar voru samvaxnar.

„Tíminn hefur bara flogið, ég trúi varla hversu hratt hann hefur liðið,“ segir Angela. „Þær eru mjög spenntar að byrja í skólanum. Eldri systir þeirra er í skóla svo þær geta ekki beðið. Þær hafa hitt kennarann sinn nokkrum sinnum og elska hann.“

Samvaxnir tvíburar fæðast í einni af hverjum 200 þúsund fæðingum. Lífslíkur þeirra eru ekki miklar þar sem aðeins 5-25% þeirra lifa. Meiri líkur eru á að samvaxnir tvíburar séu stúlkubörn, eða 70-75%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert