Obama og Pútín ræða um Sýrland

Barack Obama Bandaríkjaforseti við komuna á G20-ráðstefnuna í Hangzhou. Obama …
Barack Obama Bandaríkjaforseti við komuna á G20-ráðstefnuna í Hangzhou. Obama ræddi í dag við Pútín um ástandið í Sýrlandi. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti ræddu í dag saman á hliðarlínu G20-ráðstefnunnar í Hangzhou í Kína, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að viðræður utanríkisráðherra ríkjanna, þeirra John Kerrys og Sergei Lavrovs, um að draga úr átökum í Sýrlandi, sigldu í strand.

„Forsetinn ræðir við Pútín, forseta Rússlands,“ hefur AFP-fréttastofan eftir talsmanni bandaríska öryggisráðsins. „Við búumst við að geta veitt frekari upplýsingar um viðræður þeirra síðar í dag.“

Áður hafði AFP haft eftir hátt settum bandarískum embættismanni að enginn samningur hafi náðst í viðræðum þeirra Kerrys og Lavrovs, er þeir ræddust við í Hangzhou. Áður en viðræðunum var slitið hafði verið útlit fyrir að samningar myndu nást um að koma neyðaraðstoð til almennra borgara í Aleppo. Þá hafði einnig verið útlit fyrir að Rússar, ásamt sýrlenska stjórnarhernum, féllust tímabundið á að hætta loftárásum. 

Fyrri samningar um vopnahlé í Sýrlandi hafa ekki haldið lengi og sagði Obama í gær að bandarísk stjórnvöld efuðust um árangur í samningaviðræðum, en að það borgi sig að láta á þær reyna. Saklausir borgarar í Sýrlandi þurfi á neyðaraðstoð að halda. 

Bandarísk stjórnvöld höfðu vonast eftir því að geta beitt stjórnvöld í Moskvu þrýstingi vegna stuðnings þeirra við stjórn Sýrlandsforseta á G20-ráðstefnunni. Sérfræðingar telja að Assad gæti ekki haldið embætti sínu ef hann nyti ekki stuðnings Rússa og Írana. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka