Telja Bretland vera á réttri leið

AFP

Meirihluti Breta telur að Bretland sé á réttri leið í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í sumar þar sem meirihlutinn samþykkti að ganga úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem unnin var á vegum Ashcrofts lávarðar.

Fjallað er um skoðanakönnunina á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en samkvæmt henni eru 59% Breta á því að Bretland sé á réttri leið. Þar af tæplega 30% þeirra sem kusu með því í þjóðaratkvæðinu að landið yrði áfram hluti af Evrópusambandinu.

Meirihlutinn telur einnig samkvæmt könnuninni, sem náði til um 8 þúsund manns, að bresku erfnahagslífi muni farnast vel næsta árið eða 57%. Þjóðaratkvæðið fór fram í lok júní þar sem 52% kusu með því að yfirgefa Evrópusambandið en 48% vildu vera áfram innan þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka