Lofa að taka við 360.000 flóttamönnum

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York nú í kvöld að 50 ríki hafi heitið því að taka við 360.000 flóttamönnum frá stríðshrjáðum löndum á þessu ári.

Obama greindi frá því að þjóðarleiðtogar bæði Þýskalands og Kanada hefðu heitið því að taka við helmingi fleiri flóttamönnum en í fyrra.

„Við stöndum andspænis verulega umfangsmiklum hremmingum,“ sagði hann.

Sameinuðu þjóðirnar segja um  það bil 21 milljón flóttamanna hafa neyðst til að yfirgefa heimaríki sín vegna ofsókna eða stríðsástands. Þar af hafa níu milljónir manna þurft að leggja land undir fót vegna stríðsástandsins sem ríkt hefur í Sýrlandi undanfarin sex ár og hafa fjórar milljónir þeirra flúið land.

„Við getum ekki horft undan eða snúið við þeim baki. Að skella hurðinni framan í þessar fjölskyldur brýtur í bága við okkar mikilvægustu gildi,“ sagði Obama.

Bandarísk stjórnvöld hafa, að sögn fréttavefjar BBC, samþykkt að taka á móti 110.000 flóttamönnum á fjárhagsárinu 2017, sem hefst 1. október næstkomandi.  Þau hafa þegar tekið á móti 85.000 flóttamönnum á þessu fjárhagsári.

Barack Obama Bandaríkjaforseti ræðir við Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á …
Barack Obama Bandaríkjaforseti ræðir við Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á sérstökum fundi um málefni flóttamanna sem haldinn er í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert