Bólukrem hækkað um 3.900%

Aloquin inniheldur tvö ódýr innihaldsefni en hefur hækkað í verði …
Aloquin inniheldur tvö ódýr innihaldsefni en hefur hækkað í verði um 3.900% á 18 mánuðum. Skjáskot

Bandaríska lyfjafyrirtækið Novum Pharma keypti réttinn að bólukreminu Aloquin í maí 2015 og hækkaði verðið á því um 1.100%. Síðan þá hefur fyrirtækið hækkað verðið tvisvar sinnum til viðbótar og í dag nemur hækkunin 3.900%.

Aloquin inniheldur tvö ódýr innihaldsefni en þegar Novum Pharma keypti réttinn að kreminu af Primus Pharmaceuticals kostuðu 60 grömm 241 Bandaríkjadal. Í dag kostar sama magn af kreminu 9.561 dal.

Þetta er aðeins nýjasta dæmið um gríðarlega hækkun lyfjaverðs vestanhafs en umræða um málið fór af stað fyrir alvöru þegar athafnamaðurinn Martin Shkreli hækkaði verðið á alnæmislyfi um 5.000%. Hann var í kjölfarið nefndur „hataðasti maður heims.“

Frétt mbl.is: Hækka lyf um 5.000%

Frétt mbl.is: Hataði lyfjaforstjórinn handtekinn

Þá varð græðgi lyfjafyrirtækja að kosningamáli þegar Mylan, fyrirtækið sem framleiðir ofnæmispennann EpiPen, hækkaði verðið á honum um 500%. Framkvæmdastjóri Mylan mun á næstunni mæta fyrir þingnefnd þar sem hann verður krafinn svara um ástæður hækkunarinnar.

Frétt mbl.is: Epi-penninn hækkar um 400% á 5 árum

Samkvæmt rannsóknum tímarits bandarísku læknasamtakanna hækkaði verð yfir 400 samheitalyfja um meira en 1.000% á árunum 2008-2015. Hillary Clinton, forsetaefni demókrata, hefur heitið því að sekta lyfjafyrirtæki fyrir verðhækkanir af þessu tagi og setja lög til að heimila innflutning lyfja erlendis frá.

Talsmaður Novum Pharma sagði að fyrirtækið hefði verið stofnað af fjárfestum sem vildu bjóða upp á áhrifaríkar nýjungar á viðráðanlegu verði.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert