Úr karlrembu í rasisma

Myndirnar sem kippt var úr umferð í byrjun september.
Myndirnar sem kippt var úr umferð í byrjun september.

Ítölskum yfirvöldum hefur nú tekist að brenna af tvisvar í röð en herferð sem var ætlað að stemma stigu við minnkandi fæðingartíðni hefur nú bæði verið gagnrýnd fyrir karlrembu og rasisma.

Frétt mbl.is: Frjósemisherferð gagnrýnd fyrir karlrembu

Heilbrigðisráðherrann Beatrice Lorenzin fyrirskipaði breytingar á herferðinni í byrjun september eftir að myndir sem áttu að vekja athygli á Frjósemisdeginum voru fordæmdar sem lítillækkandi, karlrembulegar og yfirgangssamar.

Í dag neyddist hún svo til að afturkalla eina af myndunum sem áttu að koma í staðinn, en á myndinni var gerður samanburður á „góðum lífstíl“ og „slæmum lífstíl.“

Í raun er um að ræða tvær myndir en á fyrri myndinni sjást hvít brosandi pör hafa það gott við ströndina. Á seinni myndinni sést blandaður hópur, og inn á milli hörundsdökk ungmenni með afró-hár, reykja sígarettur, kveikja í hasspípu og neyta fíkniefna.

Undir myndunum stóð „góður ávani að tileinka sér“ og „slæmir vinir til að láta flakka.“

Voru stjórnvöld sökuð um að hafa skipt karlrembunni út fyrir rasisma.

Lorenzin sagðist myndu fyrirskipa rannsókn á málinu og tilkynnti að hún hefði látið samskiptastjóra ráðuneytisins fjúka.

Fæðingartíðni er hvergi lægri innan Evrópusambandsins en á Ítalíu. Árið 2015 fæddust aðeins átta börn á hverja 1.000 íbúa. 485.000 börn fæddust þar í landi í fyrra og hafa fæðingar aldrei verið færri.

Heilbrigðisráðherrann varaði við því fyrr á árinu að um skelfilega þróun væri að ræða og að óbreyttu yrðu nýfædd börn 350.000 á ári innan áratugar.

Gagnrýnendur herferðarinnar hafa hins vegar bent á þann fjölda ljóna sem eru í veginum og gera barneignir óaðlaðandi; mikið atvinnuleysi, lág laun, lélegur orlofsréttur og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert