Vara við kaupum á hundum með flatt trýni

Margir vilja fá sér pug, enda skemmtilegir og krúttlegir hundar. …
Margir vilja fá sér pug, enda skemmtilegir og krúttlegir hundar. En þeim er hætt við að eiga erfitt með öndun. AFP

Dýralæknar í Bretlandi vara fólk við því að fá sér hunda með flatt trýni. Þeir segja að slíkum hundum, s.s. frönskum bolabítum og pug, sé hættara en öðrum við heilsufarsvandamálum.

Hundar sem hafa flatt trýni njóta sívaxandi vinsælda í Bretlandi. Má þar nefna bolabíta, pug, franska bolabíta og hunda af tegundinni shih-tzu. Öllum þessum tegundum er þó hætt við ákveðnum heilsufarsvandamálum og því segja Samtök breskra dýralækna að vinsældir tegundanna „auki á þjáningar dýra“.

Hundar með flatt trýni eru stundum sagðir „klesstir“ í framan og hafa auk þess margir fellingar í húð, m.a. í andliti.

BBC fjallar ítarlega um afstöðu dýralæknasambandsins og hefur eftir forseta þeirra að tilvonandi hundaeigendur verði að taka með í reikninginn að hundar með flatt trýni glími við margvísleg heilsufarsvandamál, allt frá sárum í augum (sem oft eru frekar útstæð) og til alvarlegra öndunarerfiðleika. „Við hvetjum fólk eindregið til að velja heilbrigðari tegundir eða blendingshunda,“ segir forsetinn, Sean Wensley.

Fleiri hafa tekið undir áhyggjur dýralæknanna m.a. Konunglegi dýralæknaskólinn og hundaræktendafélög.

Svo virðist sem margir eigendur þessara hunda geri sér enga grein fyrir mögulegum heilsufarsvandamálum. Það helst líka í hendur, vinsældirnar, og hversu margir þeirra eru yfirgefnir af eigendum sínum. 

BBC talaði við sex aðila í Bretlandi sem sjá um að bjarga munaðarlausum hundum. Þeir segja allir að fleiri hundar með flatt trýni komi í þeirra umsjá nú en undanfarin ár. 

Frétt BBC í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert