Nær ómögulegt loftslagsmarkmið

Sumir vísindamenn segja að markmið um 1,5°C hlýnun geti dreift …
Sumir vísindamenn segja að markmið um 1,5°C hlýnun geti dreift athygli loftslagsaðgerða og fært áhersluna yfir á óraunhæfar tæknilegar lausnir frekar en á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. AFP

Torsótt og jafnvel ómögulegt verður að ná markmiðinu sem samþykkt var í Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum um að halda hlýnun jarðar vel innan við 2°C og helst innan við 1,5°C að mati sérfræðinga. Sumir vísindamenn telja að 1,5°C hlýnun gæti jafnvel verið orðinn veruleiki innan áratugar.

Þjóðarleiðtogar samþykktu það viðmið að halda hnattrænni hlýnun vegna losunnar manna á gróðurhúsalofttegundum innan við 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 2009. Þó að slík hlýnun hefði verulega breytingar í för með sér gæfi það möguleika á að forðast alverstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Miðað við núverandi losun stefnir hins vegar allt í að hlýnunin verði nær 3°C fyrir lok þessarar aldar sem hefði gríðarleg áhrif á líf manna og gæti þurrkað út fjölda tegunda lífs. Því kom það vísindamönnum veruleg á óvart þegar loftslagsfundurinn í París samþykkti að bæta við ákvæði um að stefna að því að halda hlýnun innan við 1,5°C ef mögulegt er.

„Eins og er höfum við aðeins örfáar sviðsmyndir sem skila okkur þangað og það eru allt jaðarniðurstöður,“ segir Valerie Masson-Delmotte, loftslagsvísindamaður við Pierre Simon Laplace-stofnunina í París um 1,5°C-markmiðið.

Þegar komin langleiðina að 1,5°C hlýnun

Hún var á meðal nokkurra helstu loftslagsfræðinga heims sem komu saman í Oxford í vikunni til þess að ræða loftslagsmarkmiðin. Þeir vinna nú að samantektarskýrslu fyrir loftslagsnefnd SÞ (IPCC) um metnaðarfyllra markmiðið.

„Slæmu fréttirnar eru að við erum þegar komin tvo þriðju hluta leiðarinnar þangað,“ segir Jim Hall, forstöðumaður Umhverfisbreytingastofnunar Oxford-háskóla sem hélt ráðstefnuna. Hann bendir á að árið í fyrra, sem var það hlýjasta frá því að mælingar hófust, hafi verið heilli gráðu hlýrra en fyrir 150 árum.

Richard Betts, yfirmaður rannsóknar á áhrifum loftslagsbreytinga hjá bresku veðurstofunni, varar við því að fyrsta árið sem sé 1,5°C hlýrra en tímabilið fyrir iðnbyltingu gæti orðið innan áratugar.

Aðrir vísindamenn benda á að markmiðið um 1,5°C hlýnun gæti afvegaleitt stefnumótun og stjórnmálamenn gætu seilst til þess að leita til óraunhæfra tæknilegra lausna til að soga koltvísýring úr lofthjúpnum frekar en að skera verulega niður losun á gróðurhúsalofttegundum.

Kevin Anderson, aðstoðarforstöðumaður Tyndall-miðstöðvarinnar í loftslagsrannsóknum, er einn þeirra og bendir á að slíkar tæknilegar lausnar séu aðeins á tilraunastigi og gætu jafnvel valdið annars konar vandamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert