Dáir Trump og Pútín

Formaður Front National, Marine Le Pen.
Formaður Front National, Marine Le Pen. AFP

Leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, hefur áhuga á að eiga fund með Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana í Bandaríkjunum, til þess að bæta stöðu sína á alþjóðavettvangi sem og heima fyrir. Fjallað er um málið í frönskum fjölmiðlum en flokkur Le Pen, Front National (FN), er þjóðernisflokkur sem hefur aukið fylgi sitt á undanförnum árum.

Le Pen hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á Trump og vonast hún til þess að hitta hann í eigin persónu. Í skoðanakönnun sem birt var í Frakklandi í morgun kemur fram að Le Pen muni auðveldlega komast í aðra umferð forsetakosninganna í Frakklandi á næsta ári. Ef enginn frambjóðandi hlýtur 50% eða meira í forsetakosningum í Frakklandi er kosið aftur á milli þeirra tveggja sem fá flest atkvæði í fyrri umferðinni.

François Hollande, sósíalistinn og forseti Frakklands, nýtur mun minni hylli meðal kjósenda en Le Pen og ef hann fer í framboð á ný er ólíklegt að hann komist áfram í aðra umferð, samkvæmt skoðanakönnunum.

Stuðningsmenn Le Pen eru að reyna að koma á fundi þeirra Trump en þau deila sömu skoðunum varðandi innflytjendur. En það sem stendur í vegi fyrir fundi þeirra núna er að Le Pen vill hitta hann eftir að Bandaríkjamenn hafi kosið hann forseta. Á meðan það er ekki ljóst þá bíður hún með fundinn. Ekki er langt síðan hún lýsti því yfir að hún myndi kjósa hvað sem er annað en Hillary Clinton ef hún hefði atkvæðisrétt í Bandaríkjunum.

Le Pen dáist að fleirum því Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er einn þeirra sem hún telur mikilmenni sögunnar. Samkvæmt upplýsingum Le Parisien er það ekki spurning hvort heldur hvenær Le Pen hittir Pútín að máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert