„Ekki skjóta hann!“

Rakeyia Scott tók atburðinn upp á myndband og má heyra …
Rakeyia Scott tók atburðinn upp á myndband og má heyra hana biðla til lögreglu að skjóta hann ekki. Ljósmynd/Rakeyia Scott

Eiginkona Keith Lamont Scott, sem var myrtur af lögreglu í Norður-Karólínu á þriðjudag, tók augnablikið þegar eiginmaður hennar var skotinn upp á myndband. Í myndbandsupptökunni má heyra hana biðla til lögreglumannanna. „Ekki skjóta hann!“ heyrist Rakeyia Scott segja.

Þá sýnir myndbandið er hún segir eiginmanni sínum að yfirgefa bíl sinn, sem var umkringdur lögreglumönnum. Myndbandið sýnir hins vegar ekki  að sögn fréttavefjar BBC er Scott var skotinn, né heldur hvort hann var vopnaður byssu líkt og lögregla heldur fram.

Bæjaryfirvöld í Charlotte mæta nú síauknum þrýstingi á að birta myndbandsupptökur af atburðinum.

Alls hafa 821 fallið fyrir hendi lögreglu í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári, samkvæmt Mapping Police Violence samtökum sem safna saman tölfræði um lögregluofbeldi, og er Scott  241 svarti maðurinn sem er myrtur af lögreglu.

„Hann var að taka lyfin sín“

Í upptöku Rakeyiu Scott heyrist lögreglumaður kalla: „Upp með hendur!“ og síðan heyrist Rakeyia Scott hrópa „Ekki skjóta hann. Ekki skjóta hann. Hann er ekki með neitt vopn. Hann er ekki með neitt vopn. Ekki skjóta hann.“

Þá heyrist lögreglumaður segja „Ekki skjóta. Slepptu byssunni. Slepptu fjandans byssunni.“

Rakeyia Scott svarar því: „Hann er ekki með neina byssu. Hann er með TBI [heilaskaða],“ og bætir því næst við: „Hann var að taka lyfin sín.“

Nokkrum sekúndum síðar heyrist skot og Rakeyia Scott hleypur í átt að lögreglu og kallar: „Skaust hann? Það er eins gott að hann sé ekki dauður!“

Mótmælt hefur verið á götum Charlotte undanfarnar þrjár nætur.
Mótmælt hefur verið á götum Charlotte undanfarnar þrjár nætur. AFP

Scott, var 43 ára sjö barna faðir, er hann var skotinn af lögreglu á bílastæði við íbúðablokkir á þriðjudag. Lögreglumennirnir voru þangað voru í leit að öðrum manni sem þeir ætluðu að handtaka.

Frásögnum lögreglu og ættingja Scott af dauða hans ber ekki saman. Lögregla segir hann hafa verið vopnaðan skammbyssu, en ættingjar hans segja hann hafa verið með bók í hönd.

Hægur í hreyfingum eftir heilaskaða

Lögfræðingar fjölskyldunnar segja Scott hafa verið mjög hægan í hreyfingum er hann var að koma sér út úr bílnum og að ástæða þess sé sú  að hann varð fyrir heilaskaða í bílslysi á síðasta ári.

Morðið á Scott hefur leitt til mótmæla í Charlotte sl. þrjár nætur og þá lýsti ríkisstjóri Norður-Karólínuríkis yfir neyðarástandi í borginni.

Kerr Putney, lögreglustjóri Charlotte, og borgarstjórinn, Jennifer Roberts, vörðu þá …
Kerr Putney, lögreglustjóri Charlotte, og borgarstjórinn, Jennifer Roberts, vörðu þá ákvörðun að birta ekki myndbandið. AFP

Getur gert ástandið verra

Bæjaryfirvöld vörðu þá ákvörðun sína í dag að birta ekki myndbandsupptökur úr myndavélum sem lögreglumenn bera eða úr mælaborðum lögreglubíla á vettvangi.

„Mér finnst að það eigi að birta myndbandið – þetta er bara spurning um tímasetningu,“ sagði Jennifer Roberts, borgarstjóri Charlotte.

Myndböndin sýndu hins vegar ekki með afgerandi hætti hvort Scott hafi verið vopnaður, en lögregla hefur þegar sagt hafa fundið byssu á vettvangi.

Kerr Putney, lögreglustjóri Charlotte segir myndböndin ein og sér ekki vera nægjanleg sönnunargögn og að verði þau birt án þess að vera sett í frekara samhengi þá geti þau gert ástandi enn verra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert