Óttast um Kínamúrinn

Kínamúrinn.
Kínamúrinn. mbl.is/Brynjar Gauti

Viðgerðir á Kínamúrnum hafa vakið litla hrifningu meðal Kínverja á samfélagsmiðlum í dag enda þykir illa hafa tekist til við endurbæturnar á múrnum. Aðeins er um hluta múrsins að ræða og hefur steypu verið óspart bætt ofan á Kínamúrinn. 

Um er að ræða 8 km af Kínamúrnum í Liaoning héraði sem byggður var árið 1381. Myndir sýna að ójöfn þrep og villtur gróður hafa vikið fyrir hvítum steyptum stíg. „Þetta minnir helst á verk hóps fólks sem hefur ekki einu sinni útskrifast úr grunnskóla,“ skrifar einn á Weibo samfélagsmiðilinn. „Ef þetta er niðurstaðan þá er eins gott að sprengja hann upp.“

Margir tjá sig um myndirnar og virðast allir vera ósáttir við niðurstöðuna. Velta menn fyrir sér hvernig standi á því að fólk sem hafi ekki hundsvit á menningarverðmætum sé látið annast framkvæmd sem þessa. 

Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er Kínamúrinn 7 til 8 metra hár og víða um 4 til 8 metra breiður. Hann er gerður úr grjóti, tré, múrsteinum og mold. Ytri og innri veggir úr steini eru á múrnum og á milli þeirra er göngustígur. Með jöfnu millibili má sjá varðturna sem eru um það bil 24.000 talsins. Múrinn er alls um 7300 kílómetrar að lengd og talið eitt mesta mannvirki heims.

Kínverjarnir byrjuðu að reisa múra á 3. öld fyrir Krist til þess að vernda fólk og byggð. Áður en Kína var sameinað árið 221 fyrir Krist voru mörg furstadæmi í landinu og spennan á milli þeirra var mikil. Oft kom til átaka og því voru reistir múrar til varnar furstadæmunum. Þegar þau sameinuðust síðan undir stjórn Qin-ættarinnar voru múrarnir rifnir niður en þá eignaðist þjóðin nýja óvini í norðri. Móngólskar hirðingaþjóðir réðust inn í landið úr norðri og ákveðið var að byggja mikinn múr við þau landamæri. Múrinn var gerður úr mold og því enginn ummerki eftir hann sjáanleg í dag. En múrinn hindraði ekki Mongólana í því að ráðast inn í landið og tóku þeir við stjórnartaumunum í kringum 1206. Þeir kölluðust Yuan-ættin en var steypt af stóli árið 1368 og Ming-ættin tók við stjórnartaumunum.

 Múrarnir sem enn standa voru að mestu leyti byggðir á 15. öld eftir Krist þegar Ming-ættin var við völd í landinu. Tilgangurinn var að verjast Mongólunum ef þeir skyldu ráðast aftur að landinu. Nú var notaður steinn í múrana og því standa þeir enn í dag. Þegar Qing-ættin komst til valda á 17. öld var mannvirkið orðið 2400 kílómetra langt. Síðan þá hefur múrinn verið endurbyggður, lagaður og styrktur oft og mörgum sinnum. Milljónir Kínverja hafa unnið við múrinn í aldanna rás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert