Tölvuþrjótar birta mynd af passa Obama

Tölvuþrjótar virðast hafa komist yfir mynd af vegabréfi Michelle Obama …
Tölvuþrjótar virðast hafa komist yfir mynd af vegabréfi Michelle Obama og birt hana á netinu. AFP

Verið er að rannsaka meintan gagnastuld úr Hvíta húsinu af því sem virðist vera skönnuð mynd af vegabréfi Michelle Obama, forsetafrúar Bandaríkjanna. Talsmaður Hvíta hússins greindi frá því í dag að svo virðist sem tölvuþrjótar hafi komist inn í gmail netfang eins starfsmanns Hvíta hússins og náð þaðan skannaðri mynd af vegabréfi forsetafrúarinnar, sem síðan var birt á netinu.

Aðrar trúnaðarupplýsingar voru einnig birtar, m.a. ferðaáætlanir, nöfn, kennitölur og fæðingardagar starfsfólks Hvíta hússins. Ekki hefur þó enn fengist staðfest að um raunveruleg gögn sé að ræða.

Tölvuþrjótahópurinn DCLeaks.com, sem í síðustu viku birti persónuupplýsingar úr netfangi Colin Powells fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur að sögn fréttavefjar BBC lýst yfir ábyrgð á verknaðinum.

Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði atvikið vera í skoðun og Josh Earnest talsmaður Hvíta hússins sagði netstuldinn eiga að vera „vekja alla til meðvitundar“.

Fórnarlamb gagnastuldsins er að hans sögn verktaki, en ekki fastur starfsmaður í Hvíta húsinu. „Á þessari stundu get ég ekki sagt að niðurstaða hafi fengist í málinu um það hvaða einstaklingur eða einstaklingar kunni að bera ábyrgð á gagnastuldinum,“ sagði Earnest.

Leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA), sem ber ábyrgð á að vernda forsetann og forsetafrúna, hefur lýst hefir áhyggjum á atvikinu. „Leyniþjónustan hefur alltaf áhyggjur þegar upplýsingum um einstaklinga sem okkur ber að vernda, eða um starfsemi okkar, eru sagðar hafa verið gerðar opinberar,“ sagði Cathy Milhoan, samskiptastjóri CIA.

Í júlí birtu tölvuþrjótar mikinn fjölda tölvupósta frá Landsnefnd Demókrataflokksins sem leiddi til afsagnar, formanns flokkstjórnar Demókrataflokksins, Debbie Wasserman Schultz. Í gær staðfesti síðan netfyrirtækið Yahoo að tölvuþrjótar hefðu stolið notendaupplýsingum 500 milljón notenda Yahoo árið 2014 og er það talinn vera einn stærsti gagnastuldur sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert